148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir prýðisræðu. Ég er sammála mörgu af því sem hann kom inn á, m.a. um þann viðvarandi vanda sem við þekkjum mjög vel sem erum þingmenn úr landsbyggðarkjördæmum að í fjárlögum á hverjum tíma skortir svolítið á sýn, sérstaklega á þessar minnstu stofnanir. Hv. þingmaður nefndi náttúrustofurnar. Við getum talað um fræðslunetin og símenntunarstofnanirnar hringinn í kringum landið. Það hefur blasað við að menn hafa svolítið treyst á að þingmenn kjördæmanna tryggðu að þessar stofnanir fengju nægilega fjármuni í gegnum þingið. Þau vinnubrögð má sannarlega bæta. Ríkisstjórnin skrifar í sinn stjórnarsáttmála mikið um að við viljum að allir landsmenn sitji við sama borð og njóti sömu þjónustu af hálfu ríkisins. Þetta er auðvitað eitt af því sem þar þarf að skoða.

Hv. þingmaður minntist líka á að sá tími sem við hefðum haft til að undirbúa þessi fjárlög væri óvanalega stuttur en það væru allir að gera sitt besta. Ég held að það sé nákvæmlega þannig. Það sem við erum hins vegar að gera í þessum fjárlögum, bæði í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngum, er að sýna hvert við stefnum. Síðan í fjármálaáætlun um næstu fimm ár sem kemur á vorþinginu munum við vonandi geta sýnt betur fram á hvað við ætlum að gera á kjörtímabilinu. En á svona stuttum tíma þurftum við fyrst og fremst að geta brugðist við og sýna fram á hvað við þyrftum að gera. Stórsókn í samgöngum og menntamálum ætlum við að fara í. En á þessum stutta tíma gátum við fyrst og fremst tekið það sem augljóslega blasti við að hægt væri að fara í án þess að raska jafnvægi í ríkisfjármálum en líka að geta farið í þær framkvæmdir sem hægt verður að fara í á árinu 2018. Hitt tekur síðan oft á tíðum lengri tíma.