148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:14]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hér upp undir fjárlagaumræðunni og ræða aðeins um byggðasjónarmiðin sem birtast í þessu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þau birtast m.a. í samgöngumálunum þar sem enn eru veruleg vonbrigði. Vissulega eru settar 755 milljónir til viðbótar frá því sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur náð fram í þrjú verkefni. Það eru sannarlega mikilvæg verkefni og ég fagna því sérstaklega að sjá veginn um Skriðdal í tillögum meiri hluta nefndarinnar, en hér er enn og aftur allt of lítið gert.

Ég get nefnt dæmi um mikilvægar framkvæmdir sem hreinlega geta ekki beðið lengur. Hér má nefna Dettifossveg. Dettifoss er aflmesti foss í Evrópu og hefur fyrir þær sakir gríðarlegt aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Þetta er algerlega til skammar, frú forseti. Getið þið ímyndað ykkur hvernig aðgengi að aflmesta fossi í Evrópu væri ef hann væri einhvers staðar annars staðar en á Íslandi? Með því að ljúka við veginn tengjum við líka Mývatnssveitina við Öxarfjörðinn og opnum þar betur á aðgengi ferðamanna að magnaðasta lághitasvæði landsins og jafnvel í heimi með sínum einstöku náttúruvættum og náttúrugæðum.

Þá standa einnig út af virkilega mikilvæg verkefni sem myndu hafa gríðaráhrif á búsetugæði nokkurra byggða, svo sem veginn til Borgarfjarðar eystri, Bárðardalsveg og svo get ég ekki látið hjá líða að nefna eitt verulega skammarlegt dæmi sem er Vestfjarðavegur 60. Ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vísar nú eflaust til þess að samgönguáætlun hafi ekki verið í samræmi við fjármálaáætlun, en ég ætla að leyfa mér að benda á að það var í raun fjármálaáætlun sem var langt frá því að vera í samræmi við samgönguáætlun sem var samþykkt á undan. Ég vona að þetta verði haft í huga við gerð og samþykktir næstu samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar í vor og gætt að því að fjármálaáætlunin verði í samræmi við samþykkta stefnu þingsins.

Þá vil ég einnig nefna stöðu sýslumannsembættanna sem samkvæmt loforðum fyrri ríkisstjórnar átti að styrkja og efla með stækkun þeirra og sameiningum, en eins og svo oft hefur það verið svikið og er framtíð sýslumannsembættanna í algerri óvissu. Til að mynda má nefna þá stöðu sem sýslumaðurinn á Austurlandi stendur frammi fyrir, en miðað við núverandi frumvarp til fjárlaga hefur embættið 141,4 millj. kr. úr að spila þegar vitað er að rekstur embættisins árið 2016 kostaði 157 millj. kr. og ljóst er að núna um áramótin tekur embættið með sér tæplega 40 millj. kr. halla inn í nýtt ár. Það er því ljóst að hugur stjórnarmeirihlutans stendur ekki til þess að styrkja og efla sýslumannsembættin um landið og ber frumvarpið ekki merki um ábyrga áætlanagerð heldur, líkt og rætt var um í gær, nokkuð sem varla er ásættanlegt.

Stóra óbyggðastefnan birtist þó allra mest í fjárframlögum til sjúkra- og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þrátt fyrir sannarlega prósentuaukningu á milli ára er enn aðhaldskrafa til staðar og þó að hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafi náð fram 450 millj. kr. aukningu, sem sannarlega ber að fagna, er ljóst að enn er áframhaldandi sveltistefna gagnvart heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Ef eitthvað er ætti einmitt að ganga rösklega til verks og styrkja hana verulega og létta þannig mögulega álagi af Landspítalanum.

Ég sat fund fjárlaganefndar fyrr í vikunni þar sem forstöðumenn heilbrigðisstofnana komu til fundar við nefndina og af orðum þeirra var alveg ljóst að staðan er ólýsanlega alvarleg.

Þá verð ég að lokum að nefna enn önnur vonbrigðin sem mig grunar reyndar að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið undir með mér, en það eru framlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landbúnaði sem eru hreinlega skorin niður. Engin aukning er heldur til skógræktar.

Frú forseti. Þar sem ég sat og hripaði niður þessi orð barst mér bréf frá Akureyri, jólakveðja sem mig langar, með leyfi forseta, að grípa niður í og deila með ykkur því að mér finnst skilaboðin eiga sérstaklega vel við okkur hér í dag. Sendandinn kallar kveðjuna jólapistil Stekkjarstaurs árið 2017:

„„Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum.“ Þessa gömlu jólavísu syngjum við hástöfum án þess að hugsa um hvað efni hennar er í litlum takti við samtímann. Eða eru máski einhverjir sem þetta á við og hvernig bregðumst við við í þeim tilvikum? Eða bregðumst við jafnvel börnunum sem brauðs eru þurfi? Alla vega virðist regluverk mannanna þannig að jólabónusum er mjög misskipt, meðan einn fær ekki jólabónus á 5.000 kr. fær annar óvænt jólabónus upp á 500.000 kr. sem getur orðið til þess að bitið verður í mikið brauð á þeim bæ.

Það er þó víst að klæðin eru nauðsynleg til að komast fram úr „bólunum“ og trúlega er æskilegt að liturinn sé frekar blár eða grænn ef marka má gerðir þeirra manna sem við höfum kosið til forystu. Það er dásamlegt að vera líkamlega og andlega hraustur og svo sannarlega sparar það þjóðinni bæði útgjöld og eykur þjóðartekjurnar verulega. Það heitir líka á tyllidögum „mesta hagvaxtarskeið“ okkar. En hvernig er það á hvunndeginum, er hagurinn lakari? Er þá ekki lengur unnt að baka brauð fyrir alla? Lenda nýbökuðu brauðin hjá þeim sem komast ekki úr „bólunum“ og verða að neyta þeirra í „bólinu“ eða algerri umsjón annarra? Ég horfði á og hlustaði með athygli á sögu eiginkonu manns sem er með heilabilun. Ríkið afnemur smánarlegar bætur sem hún hefur fengið frá hinu opinbera fyrir að annast ósjálfbjarga eiginmann sinn fyrir það eitt komast nú á eftirlaun og hætta launaðri vinnu og verður þar með alla daga ársins að spara ríkinu útgjöld og sinna hlutverki þess óstudd.

Hvers konar meðferð er þetta á meðborgurunum? Hvers konar ánauð er verið að setja fólk í? Og nú kem ég að því efni sem liggur eins og mara á mér þessa daga. Ég er hreyfihamlaður og lítil telpa horfði á mig í hjólastólnum um daginn og spurði: „Ertu Stekkjarstaur?“ Þar með fékk ég hlutverk í jólasveinaleiknum en átti reyndar ekki klæðin rauð. Það er svo dýrt að halda þessum Stekkjarstaur í þeim lífsgangi sem hann kýs. Eða er það svo ef til vill mun ódýrara að gera honum ekki kleift að fara úr „bólinu“? Þarna komum við einmitt að þessum bannorðum sem eru „kostnaðarvitund heilbrigðisþjónustuþega“.

Stekkjarstaur verður að eiga sama rétt og hinir sveinarnir og einnig jóladísirnar til þátttöku í samfélaginu án þess að vera þrúgaður af samviskubiti út af því hvað hann eða hún kosti samfélagið. Það er því skelfilegt fyrir „Stekkjarstaur“ að hafa auk þess álags sem er að vera hreyfihamlaður að hafa búið eiginkonunni þær aðstæður að leggja á samvisku hennar hvenær hún geti látið af starfi sínu utan heimilis og nýtt sér fullan rétt til eftirlauna. Því að þar með afsalar hún sér umönnunarbótum um Stekkjarstaur og hamlar þar með hreyfifrelsi hans. Ég hélt satt best að segja að þetta væri vitleysa þangað til sérfræðingur á þessu sviði leiddi mig í þann ótrúlega sannleika að þetta væri rétt. Þar með áttaði ég mig endanlega á því að hin „gamla grýla“ er bara alls ekki dauð. Hún er enn á róli. Henni er ekkert gefið um það að skilgetinn sonur hennar, Stekkjarstaur, sé neitt á ferðinni á sinn kostnað og best að halda honum í „bólinu“.“

Frú forseti. Það er til lítils að tala um innviðauppbyggingu og sókn fyrir dreifðar byggðir landsins ef sú stefnumörkun nær ekki inn í fjárlög ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að gera betur fyrir land og þjóð og ríkisstjórnin verður að átta sig á því að orðum fylgir ábyrgð. Þingheimur hefur sannarlega tækifæri til þess í atkvæðagreiðslunni hér á eftir með því að greiða atkvæði með breytingartillögum Samfylkingarinnar.