148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ekki mjög hrifinn af þessu fjárlagafrumvarpi af ýmsum ástæðum. Eins og ég hef rakið hér í ræðum felur það í sér töluverða aukningu útgjalda en það sem er verst er að aukningin er mjög ómarkviss. Hún er ekki til þess fallin að bæta ástandið neins staðar, hún er til þess fallin að viðhalda óviðunandi ástandi á mörgum stöðum. Það sem verst er við þetta, herra forseti, er að með þessu fjárlagafrumvarpi eru fest í sessi gríðarlega stór mistök sem ekki verður hægt, eða a.m.k. mjög erfitt, að leiðrétta ef það verður að lögum. Þar er ég ekki hvað síst að tala um fjármálakerfið, hvernig menn kasta frá sér þeim gríðarlega stóru tækifærum sem eru til að bæta það kerfi núna, tækifærum sem verða ekki til staðar áfram, og eins heilbrigðiskerfið þar sem með forgangsröðun frumvarpsins er verið að festa í sessi gallana við núverandi kerfi í stað þess að nota tækifærið til að laga það.