148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við Píratar leggjum fram nokkrar breytingartillögur sem eru unnar upp úr skuggafjárlögunum okkar. Þær eru svona lagfæringar á þessu fjárlagafrumvarpi sem við vitum annars ekkert um. Við vitum í raun ekkert hvað við erum að samþykkja hérna fjárheimildalega séð, í hvað er verið að eyða peningunum sem er lagt til í fjárlagafrumvarpinu af því að það er ekkert byggt á gildri fjármálaáætlun og stefnunni sem er sett fram þar; af því að það er ekki sundurliðað og útskýrt í fjárlagafrumvarpinu í hvað peningurinn á að fara. Ég myndi fara rosalega varlega í að hrósa einhverri stefnubreytingu, eitthvað svoleiðis, hvað þetta fjárlagafrumvarp varðar. Við eigum enn eftir að fara yfir hvað krónurnar sem eru í fjárlagafrumvarpinu þýða í alvöru fyrir næsta ár. Við vitum það ekki, við verðum bara að vera heiðarleg með það.