148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nýju fjárlögin tryggja viðspyrnu í mikilvægum málum og við komum til með að sýna enn frekar á spilin í fjármálaáætlun nýrrar stjórnar og framhaldið mun byggja á því. Það var öllum ljóst við undirbúning fjárlagafrumvarpsins að ekki yrði allur ríkisstjórnarsáttmálinn gleyptur í einu og öll kosningaloforðin uppfyllt á tveimur vikum. Við náðum þó 1,1% á hvorri viku í hækkun. [Hlátur í þingsal.] Við þurfum að vinna samkvæmt langtímasýn, vanda vinnubrögð við gerð skynsamlegrar fjármálaáætlunar til uppbyggingar sem sýnir okkar skýru stefnu til lengri tíma. Þannig sýnum við í verki vinnubrögð sem þjóðin kallar eftir.

15 milljarðar til viðbótar til að efla þau kerfi sem raunverulega jafna kjör hér í landinu eru ekki litlir fjármunir. Þessir milljarðar munu skipta venjulegt fólk í landinu daglega miklu máli. Barnafólk fær hærri barnabætur, eldra fólk og öryrkjar njóta fyrstir lægri greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu, og geðheilbrigðisþjónustan efst, og allur almenningur mun svo njóta síðar á kjörtímabilinu. Heilbrigðiskerfið úti um allt land er styrkt svo verulega og þar er um að ræða okkar mikilvægustu sameiginlegu (Forseti hringir.) verðmæti.

Virðulegi forseti. Þetta eru fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar og þar eru líka úrbætur í mál er snerta kynferðisbrot sem og svo margt annað.