148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fjalla hérna stuttlega um traust og ábyrgð í stjórnmálum. Það var þannig í kosningabaráttunni að núverandi hæstv. dómsmálaráðherra birtist á auglýsingu og þar stóð undir: Ábyrgð í verki.

Nú hefur Landsréttur verið skipaður með hætti sem er algjörlega óverjandi eins og nú er komið. Hæstiréttur hefur úrskurðað að dómsmálaráðherra hafi brotið lög með vinnubrögðum sínum, það liggur fyrir. Það sem meira er að það liggur fyrir hvers vegna. Og það sem enn þá meira er að það lá fyrir 1. júní á þessu ári. Þá hélt hv. þm. Jón Þór Ólafsson mikla tímamótaræðu þar sem hann að vísu beitti fúkyrði til þess að lýsa því að hér þyrfti fólk tíma og hafði mánuð í viðbót til þess að gera þetta almennilega samkvæmt lögum. Það kemur fram í minnihlutaáliti og í bókun minni hlutans frá þeim tíma að það væri fordæmi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 412/2010. Það er sama fordæmi og Hæstiréttur vísar til nú. Það er ekkert nýtt í dómi Hæstaréttar. Ekki neitt. Þetta lá allt fyrir 1. júní.

Hæstv. dómsmálaráðherra tók meðvitaða ákvörðun um að fara á svig við lögin að mínu mati. Það á ekki að þurfa að kalla eftir því að hæstv. ráðherrar axli ábyrgð. Þeir eiga að sjá sóma sinn í að bregðast við slíkum bersýnilegum mistökum og fyrirsjáanlegum mistökum sem varað var við, með sömu efnisforsendum og Hæstiréttur hefur nú staðfest, með því að viðkomandi ráðherra axli ábyrgð og að sjálfsögðu segi af sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)