148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni rekstrarumhverfi fjölmiðla. Þar kemur nokkuð margt til, bæði áhugi minn á því umhverfi og fjölmiðlum almennt en ekki síst umræða sem hefur komið upp núna síðustu daga og svo það að von er á skýrslu sem mun fjalla um það mál, að ég hygg er hún bara tilbúin. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar viðraði hugmynd í fjölmiðlum um að fella niður vask á áskrift fjölmiðla og hæstv. menntamálaráðherra hefur einnig tjáð sig um ýmsar leiðir sem hægt væri að grípa til til að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Ég fagna öllum hugmyndum um hvernig ríkisvaldið getur komið inn í að styrkja umhverfi fjölmiðla. Það er að mörgu leyti barnungt á Íslandi. Það byggðist upp undir óeðlilegum kringumstæðum, tengslum stjórnmálaflokka og fjölmiðla. Frjáls fjölmiðlun á Íslandi er ekki rosalega gömul. Umhverfið í dag er þannig að samfélagsmiðlar hafa þar mikil áhrif. Þar eru auglýsendur með svæði til að auglýsa og undanþegnir jafnvel innlendum lögum um skatta. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að huga að í þessu.

Sjálfur held ég að það þurfi ekki að gera eitt heldur allt þegar að þessu kemur, því að lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla er gríðarlega mikilvægt. Ég vil kalla eftir því að við skoðum tímabundnar ívilnanir vegna þess sem í raun og veru má kalla markaðsbrest sem hlýst af samfélagsmiðlum. Það mætti skoða að fella vask niður, ekki bara af áskriftum heldur af fjölmiðlum almennt. Það má skoða tryggingagjald, hvort mætti fella það tímabundið niður. Ég held að við ættum að horfa til Noregs og hvítbókar sem þar var unnin um fjölmiðla sem má kynna sér á heimasíðu fjölmiðlanefndar. Ég hvet hv. þingheim til að taka höndum saman og skoða allt þetta. (Forseti hringir.) Því það þarf að skoða allt og síst má undanskilja þar t.d. styrki til fjölmiðla.