148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á þskj. 110. Um er að ræða tvær breytingartillögur. Annars vegar er þess að geta að í 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt eru sett takmörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila.

Þess má geta að í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar, um frumvarp sem varð að lögum nr. 59/2017, kom fram að bent hefði verið á að brottfall undanþágunnar sem hér um ræðir gæti aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað þeirra. Þess vegna var lagt til að brottfall undanþágunnar yrði samþykkt en því var beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að tekið yrði til skoðunar hvernig mætti tryggja að það kæmi ekki niður á eðlilegri fjármögnun innan samstæðna sem beindist ekki að því að takmarka skattskyldu viðkomandi samstæðna.

Þessar breytingartillögur hafa ekki komið fram fyrr en nú. Sú breytingartillaga sem við fengum til umfjöllunar var með þeim hætti að við töldum ekki skynsamlegt að fallast á hugmyndir fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Leggur því meiri hlutinn til — og ég hygg að mér sé óhætt að segja að að baki því áliti standi líka efnahags- og viðskiptanefnd einróma — að brottfalli b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt verði um sinn frestað um eitt ár til 1. janúar 2019 til þess að frekari tími gefist til að móta tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands, samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur.

Seinni breytingartillagan kemur til vegna þess að eftir 2. umr. barst nefndinni erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem farið var fram á að nefndin legði til að ákvæði til bráðabirgða V og VI, í lögum um framhaldsskóla, frá árinu 2008, yrðu framlengd. Í bráðabirgðaákvæðunum eru framhaldsskólum veittar rýmri heimildir til gjaldtöku vegna efniskostnaðar og náms utan reglulegs daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi en gert er ráð fyrir í b-lið 1. mgr. 45. gr. og 4. mgr. sömu gr. laga um framhaldsskóla. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum vegna efniskaupa og til kennslu í kvöldskóla og fjarnámi til að mæta kostnaði. Með tilliti til þessa leggur meiri hluti nefndarinnar til að bráðabirgðaákvæðin gildi skólaárin 2017–2018, 2018–2019 og 2019–2020. Heimildin gildir þó aðeins fram á við og tekur ekki til þess hluta skólaársins 2017–2018 sem þegar verður liðinn þegar framlengingin tekur gildi.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert er grein fyrir á þskj. 110. Auk þess vil ég vekja athygli þingheims á því að það er breytingartillaga á þskj. 113, frá þeim sem hér stendur, sem er tæknileg breyting því að við yfirlestur eftir 2. umr. kemur í ljós að við 41. gr. er vitnað til töluliða sem hafa þegar fallið út úr lögum. Því er lagt til að skynsemi sé í því að vitna ekki í eitthvað sem ekki er til og hefur enga efnislega þýðingu eða breytir neinu að öðru leyti.