148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum búin að fara í gegnum tvær umræður um bandorminn og um fjárlögin. Minni hlutinn hefur lagt fram fullt af breytingartillögum sem allar voru felldar. Meiri hlutinn lagði fram fullt af breytingartillögum, þær voru ekki allar felldar. Þær voru allar samþykktar og flestar þeirra, reyndar með stuðningi minni hlutans.

Það er nefnilega ekki þannig að minni hlutinn, sá sem nú er í þinginu, greiði sjálfkrafa atkvæði á móti tillögum stjórnarmeirihlutans. Við metum hverja tillögu fyrir sig. Sama ætti auðvitað að gerast hinum megin.

Ég sagði í ræðu minni áðan að ég væri enn að vona að að minnsta kosti barnabæturnar yrðu teknar til sérstakrar skoðunar hjá stjórnarliðum. Og ég vona enn að það gerist. Ekki bara vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur talað sérstaklega mikið um málamiðlanir — sem ég hélt að væru málamiðlanir á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en það má vera að þau hafi bara verið að tala um málamiðlanir innan stjórnarliðsins og að það sé meira en nægt verkefni. En ég vona enn að menn nái saman, því að dagurinn er nú ekki enn að kvöldi kominn og í fyrramálið greiðum við atkvæði um þessar tillögur. Þótt það væri ekki nema um helminginn þá myndi ég fagna því vegna þess að það er fólk úti í samfélaginu sem þarf nauðsynlega á þessum stuðningi að halda. Og það á ekki að senda það fólk í kjaraviðræður til þess að semja um barnabætur til að semja sig upp í óskertar barnabætur. Er það raunverulegur vilji hv. stjórnarliða að senda fólk með 300.000 kr. á mánuði til að semja sig upp í óskertar (Forseti hringir.) barnabætur? Væntanlega upp á þau býtti að fá minni launahækkun á móti.