148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma hér í ræðustól til að þakka hv. þingmanni fyrir — ég vil leyfa mér að kalla það hugleiðingar um valdið, skiptingu þess og deilingu. Ég get tekið undir margt sem þar var sagt. En einhvern veginn leyfum við okkur ekki oft að láta þingið vera markaðstorg hugmyndanna þar sem við ræðum um hugmyndir fram og til baka heldur, eins og hv. þingmaður benti á, er fólki skipað í fylkingar og þá eiga menn sjálfkrafa að hafa skoðanir. Eða eigum við öllu heldur að segja að þá hefti menn skoðanir sínar og lagi þær að því sem hentar meiri hlutanum hverju sinni, hugsanlega minni hlutanum líka.

Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir dálitlum vonbrigðum með nýja ríkisstjórn, ekki vegna þess að hún sé eitthvað öðruvísi en aðrar ríkisstjórnir — en kannski einmitt þess vegna. Ég hélt að það væri tækifæri núna til að reyna að breyta en það eru engir tilburðir til þess. Ég veit ekki af hverju það er. Mér finnst að stjórnarandstaðan hafi að mörgu leyti verið að reyna að rétta fram — ég vil þá ekki kalla það sáttarhönd en hönd til samstarfs, en að á hana hafi verið algerlega slegið. Ég veit ekki af hverju. En þetta eru mjög góðar hugleiðingar sem þú varst með. Ég held að það væri mjög gott ef hægt væri að breyta þessu, en eins og oft er sagt og er ekki frumlegt, þá þarf tvo í tangó. Og mér finnst að „mótpartnerinn“ okkar núna sé ekki mjög viljugur til að dansa tangó.