148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er nú ekki gangandi alfræðiorðabók um barnabótakerfi nágrannalanda okkar, en það er mjög misjafnt hvernig með það er farið. Ég held að það sé nokkuð algengt á hinum Norðurlöndunum að skerða ekki barnabætur. Í fleiri löndum sem ég þekki til í er í raun ekki horft til tekjuskerðinga. Þar er eitt meginmarkmið barnabótakerfisins að stuðla að auknum barneignum, að aukinni frjósemi, ef það mætti orða það þannig. Barnabótakerfi okkar hefur verið gagnrýnt fyrir mjög óljósan og loðinn tilgang. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði úttekt á því fyrir ekki svo löngu síðan. Þar var eiginlega megingagnrýnin þessi: Ef markmiðið er að hvetja til barneigna með einhverjum hætti þá ætti klárlega ekki að vera með tekjuskerðingar. En þar sem þær tekjuskerðingar eru fyrir hendi og hafa lengst af verið það að mínu viti, er það augljóslega ekki markmið kerfisins. En ef markmiðið er að styðja sérstaklega við tekjulægstu hópana nær núverandi kerfi því markmiði ekki heldur neitt sérstaklega vel. Þess vegna var verið að hvetja til endurskoðunar á því.

Eins og breytingartillaga minni hlutans gerir ráð fyrir hefst skerðing barnabóta við tekjumörk langt undir lágmarkstekjum á vinnumarkaði. Það hlýtur að skjóta mjög skökku við ef kerfinu er sérstaklega ætlað að styðja við þá tekjulægstu. Það er alveg ljóst að gagnger endurskoðun á þessu kerfi er mikilvæg og samspil þess við skattkerfið að öðru leyti. En það er mjög auðvelt að grípa til ráðstafana. Við þekkjum ágætlega virkni þessara kerfa og við vitum hvernig þau hafa verið skert í áranna rás, þannig að það er tiltölulega auðvelt að breyta því hér og nú og styrkja þau aðeins inn í komandi fjárlagaár.