148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þá langar mig til að forvitnast út í afstöðu hv. þingmanns varðandi skerðingar á barnabótum og skerðingar yfir höfuð. Finnst hv. þingmanni að það eigi að skerða barnabætur? Telur hann það vera bestu leiðina til að spara?

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson komið upp í ræðustól og sagt mjög skýrt að hann telji mjög furðulegt að skerða ekki — þar er hann ekki að tala um barnabætur heldur krónu á móti krónu skerðingu til öryrkja og ellilífeyrisþega, að þeir sem eiga nægilega mikinn pening þurfi ekki á þessum bótum að halda.

Hver er afstaða hv. þingmanns til skerðinga yfir höfuð, og þá kannski sérstaklega skerðingar barnabóta?