148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er alveg sammála því. Ég var að vísa í ákveðna sögu hvað þetta varðar, mína tilfinningu fyrir því hvernig umræðan hefur oft verið en alls ekki gagnvart öllum, gagnvart sumum. Það er dínamík á milli pólitískra breytingartillagna og kerfislægra og samvinnu og svoleiðis. En það vantar samvinnuna.

Nú búum við báðir að þeirri reynslu að vinna í samvinnu við alla flokka að breytingartillögum á fjárlögum. Þannig var það einmitt í desember síðastliðinn þegar það var engin ríkisstjórn. Ég verð að segja að það tókst ansi vel. Ég skil því ekki af hverju það varð allt í einu erfiðara að eiga í slíkri samvinnu þegar komin var ríkisstjórn. Það er þess vegna sem ég klóra mér pínulítið í hausnum. Jú, það er tímaskortur núna, en eins og hv. þingmaður bendir á þá þarf ekki nema klukkutíma til þess að spjalla um þetta. Ég hef ekki orðið var við það heldur að neitt slíkt hafi gerst á annan hátt en að bryddað er upp á hugmyndum á þingflokksformannafundum og það er lokað á slíkar hugmyndir. Við getum ekki einu sinni komist að sameiginlegri niðurstöðu heldur er það bara: Nei, búið, það er ekki hægt að tala um þetta meira.

Af gefinni reynslu í síðustu fjárlagaumræðu, líka hv. þingmanns sem var þá í fjárlaganefnd, væri ágætt að við reyndum að miðla af reynslu okkar í þessum ræðustól, sem ég held að við séum að gera nákvæmlega núna. Þetta finnst mér vera kjarninn í því og fullkomið tækifæri til að sýna ný vinnubrögð um samvinnu og samráð í verki.