148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er freistandi að halda áfram með samræður hv. þingmanna hér. Maður skyldi ætla að sú ágætisreynsla frá því í fyrra þegar ekki var starfandi ríkisstjórn þegar fjárlög voru samþykkt, hafi kannski kveikt þá hugmynd þegar síðasti stjórnarsáttmáli var búinn til að það væri kannski kostaráð að reyna að vinna meira saman, meiri hluti og minni hluti, og þess vegna hafi þetta ratað á forsíðu stjórnarsáttmálans. Það kom nú fljótt á daginn hins vegar að það voru fyrst og fremst orð, það voru engar efndir. Það var öllu hafnað þegar kom að samráði um nefndir og annað slíkt. Öllum tillögum sem hingað hafa borist og verið greidd atkvæði um hefur verið hafnað af ríkisstjórnarflokkunum. Nú bíða okkar umræður og atkvæðagreiðslur um frekari breytingartillögur. Maður skyldi þá ætla að það gæti verið áhugavert fyrir stjórnarmeirihlutann að sitja og hlusta og ræða um þessar breytingartillögur. En nú bregður svo við að það er enginn ráðherra í salnum. Það er enginn fulltrúi meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd og það er enginn fulltrúi meiri hlutans í fjárlaganefnd. Jú, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gefur sig fram. Hún sat í einhverjum hliðarvagni hérna fyrir norðan og er komin í salinn. Það er þó einn. Fyrir utan hana er einn stjórnarþingmaður í salnum.

Það gefur ekki fyrirheit um neina alvöru þegar kemur að samráði. Það eru nú ekki nema tveir klukkutímar síðan ég las ágætisgrein eftir hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé í Kjarnanum þar sem hann talaði um ár samvinnunnar. Sló að vísu um sig á latínu. (Gripið fram í: Á næsta ári.) Það er kannski næsta ár, já. En ég sé ekki að samvinna geti átt sér stað öðruvísi en að fólk ræði alla vega saman. Það kann að vera misskilningur hjá mér.

Aftur er verið að samþykkja fjárlög á miklum hlaupum. Að þessu sinni er frumvarpið lagt fram af meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar. Ekki hefur gefist mikill tími í þá vinnu. Þess vegna hefðum við þurft að vinna þéttar saman og vera meira til staðar. Maður getur auðvitað virt meiri hlutanum það til vorkunnar. En að sama skapi vinnur minni hlutinn líka við afar erfiðar aðstæður. Það er erfitt að kalla eftir umsögnum og flókið að kafa ofan í fjárlög og breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar. Ríkisstjórnin skilar nánast auðu núna en vísar alltaf í þessa fjármálaáætlun sem hún ætlar að gera í vor og birta. En þegar maður les fjárlögin og stjórnarsáttmálann eru engar sterkar vísbendingar um að búast megi við neinu öðru en blasir við hér nú. Verið er að gefa eftir enn meiri tekjur samkvæmt stjórnarsáttmálanum næst en þó er verið að gefa eftir núna, eða alla vega svipað.

Að mati Samfylkingarinnar og fleiri flokka í minni hlutanum er þörf á mikilli fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfi, samgöngum og víðar. Þrátt fyrir örlitla viðleitni dugir það bara því miður of skammt. Það hefur margoft komið fram í umræðum hér að breytingin frá frumvarpi Benedikts Jóhannessonar er 2,2%. Það getur nú ekki talist mikið afrek hjá forsætisráðherra sem talaði í haust og fyrir kosningar um að nú væri þörf á róttækum breytingum.

Það sem mér finnst vera alvarlegast við þetta frumvarp er fullkominn skortur á að mæta með einhverjum hætti þeim sem búa við kröppustu kjörin og fullkomin afneitun þegar kemur að því að jafna kjör landsmanna. Það er ekki tekið mark á margítrekuðum niðurstöðum innlendra og erlendra rannsókna sem sýna hvernig ójöfnuður hefur verið að aukast og hvaða samfélög gera það best og að jöfnuður sé undirstaða undir friðsælt og kraftmikið og vel fúnkerandi samfélag.

Það búa allt of margir við kröpp kjör. Sú staðreynd að 5% Íslendinga eigi jafn miklar eignir og 95%, afgangurinn, talar bara sínu máli. Það verður enginn sátt um svona ójafna skiptingu gæðanna. Það væri í raun brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda að taka á þessu, tryggja að auðurinn sem skapast vegna þess að harðduglegt fólk fer út á morgnana á hverjum degi og vinnur langt fram á kvöld, og vegna tæknibreytinga sem við sjáum, skili sér með jafnari hætti en raunin hefur verið.

Það eru fyrst og fremst vonbrigði okkar Samfylkingarfólks að þess sjái ekki augljósari merki að það sitji sósíalískur flokkur, sem talar um jöfnuð, skrifar um jöfnuð, í ríkisstjórn og meira að segja í forsætisráðuneytinu.

Ég ætla aðeins að ræða um barna- og vaxtabætur því að það jöfnunartæki skattkerfisins hefur verið markvisst brotið niður á undanförnum árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna fannst mér athyglisvert og ánægjulegt að heyra fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, hv. þm. Þorstein Víglundsson, tala í umræðunni áðan um fátækt og nefna þar reyndar líka að honum hafi fundist þetta gagnrýnisvert hjá síðustu ríkisstjórn, þeirri sem hann sat í. Mér fannst það stórmannlegt. Ég er alveg hjartanlega sammála honum.

Við eigum auðvitað að nota skattkerfið til þess að byggja undir félagslegan stöðugleika. Því hafa stéttarfélögin verið að kalla eftir. Þau hafa nefnilega verið óþreytandi í baráttu sinni fyrir réttlátari og betri stuðningi við fjölskyldur í formi m.a. barna- og vaxtabóta. Þetta á núna að nota sem skiptimynt inn í kjaraviðræður. Það er sorglegt.

Stjórnvöld síðustu ára hafa farið í hina áttina. Þau hafa veikt þessi kerfi og fært skattbyrði frá ríkasta fólkinu yfir á millitekjur og lágar tekjur. Það er ömurlegt, herra forseti.

Sem sagt. Innkoma Vinstri grænna virðist hafa haft afar takmörkuð áhrif á ríkisfjármálin og þá skattstefnu sem rekin er í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn ræður för. Hann má þó eiga það, sá flokkur, að hann er trúr sinni stefnu. Ég er henni ósammála. En það er full ástæða er til að óska honum til hamingju með að hafa náð öllu sínu fram, svo að segja.

Það þýðir heldur ekkert að skýla sér á bak við að þessi nýja fjármálaáætlun sem verður lögð fram í vor eigi að breyta öllu. Talað er um í stjórnarsáttmálanum hvað við blasi til dæmis í skattamálum og það er eftirgjöf. Eitt prósentustig í lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu kostar 14 milljarða. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði reyndar 2. Segjum að farinn hafi verið millivegur, þá kostar þetta 14 milljarða. Það hefði sannarlega verið hægt að nota þá peninga til að auka barnabætur, vaxtabætur eða mæta ungu fólki og fátæku með öðrum hætti. Það er ekki trúverðugt að ganga endalaust á afgang ríkissjóðs. Við vitum að það eru ekki alltaf blóm í haga á Íslandi. Við upplifum hæðir og lægðir og erum á toppi hagsveiflunnar núna. Við þær aðstæður er afar skynsamlegt að leggja í mikil útgjöld og á sama tíma að gefa eftir miklar tekjur. Það hefur Seðlabankinn beinlínis sagt að sé ávísun á hærri vexti og aukna verðbólgu. Það er bókardómur sem ég held að menn ættu kannski að hlusta á.

Við í Samfylkingunni höfum þess vegna lagt áherslu á að breytingar verði gerðar á sköttum og gjöldum þannig að það myndist raunverulegt svigrúm til þess að endurreisa heilbrigðiskerfið, bæta skólana, efla samgöngurnar og löggæsluna, en síðast en ekki síst til að bæta stöðu þeirra sem alltaf eru látnir mæta afgangi, það eru þeir sem búa við erfiðust kjör í landinu.

Fyrir þessu töluðu Vinstri græn, Samfylkingin og fleiri flokkar mikið fyrir kosningar; félagslegum stöðugleika og að efla efnahagslegan stöðugleika og auka jöfnuð í samfélaginu. Báðir þessir flokkar töluðu um að það væri besta leiðin til að bæta lífskjörin í landinu og stuðla að friði á vinnumarkaði. Það er ekki gert í þessu frumvarpi.

Þess vegna er freistandi að vitna í Sigurð Bessason, formann Eflingar, sem ég hef nú gert áður, sem fullyrðir að ríkisstjórnin sýni engan lit í velferðarmálum og getur sér þess til að það eigi að nota þetta sem skiptimynt í kjarasamningum. Hann ræðir hvernig vinstri og jafnaðarmannaflokkar á hinum Norðurlöndunum bregðast við. Þeir koma með slíkar tillögur strax inn í fjárlög. Þeir nota þær ekki sem skiptimynt til að halda niðri launum. Þetta kallar hann gömul og gamaldags vinnubrögð hjá ríkisstjórn Katrínar.

Mig minnir að hann hafi sagt í lokin að það væri ömurlegt að atvinnurekendur og verkalýðsfélög séu sett í þá stöðu að draga velferðina með töngum út úr ríkisvaldinu og ríkisstjórninni.

En til þess að hjálpa ríkisstjórninni örlítið að róa á mið félagslegs stöðugleika höfum við í stjórnarandstöðunni sett fram tillögur um hærri barnabætur og meiri vaxtabætur. Það er þjóðarskömm, eins og hv. þm. Inga Sæland talaði um hérna áðan, að 6 þúsund börn skuli líða skort í okkar ríka samfélagi. Og það eina sem ratar inn í stjórnarsáttmálann er að það eigi að gera úttekt á stöðu þessa fólks. Eins og það sé nú ekki töluvert vel kortlagt hér með ótal skýrslum, velferðarvaktinni og hagdeild ASÍ og fleiru og fleiru. Við þekkjum vel þær leiðir sem fara þarf. Það er engin afsökun og það er ömurlegt að það sé bara sagt á einum stað að það eigi strax að ráðast í bráðaaðgerðir til að bjarga vanda sauðfjárbænda þó að það sé nauðsynlegt, en á annarri síðu er sagt að gera eigi úttekt á stöðu þessa fólks.

Samkvæmt umsögn Alþýðusambands Íslands mun tekjuskerðing barnabóta á næsta ári miðað við áform frumvarpsins hefjast um 241.000 kr. Það er langt undir lágmarkslaunum fyrir fullt starf á vinnumarkaði. Ég held að það sé núna um 280.000 kr. og verði frá og með 1. maí 2018 300.000 kr. Þá má gera ráð fyrir að hjón með tvö börn sem bæði hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fái því um 3.000 kr. í barnabætur á mánuði. Þess vegna finnst okkur algert lágmark að hér verði samþykkt breytingartillaga sem kveður á um að barnabætur skerðist ekki fyrr en fólk er komið upp fyrir lágmarkslaun. Ég trúi ekki að það finnist ekki fimm þingmenn, Vinstri grænna þó sérstaklega, sem greiða þessum tillögum atkvæði.

Það væri auðvitað freistandi að reyna að horfa á norræna kerfið, barnabótakerfið, þar sem víða eru ekki neinar tekjuskerðingar. En það er langt í land. Þetta er varfærið skref. Þetta er þó alla vega viðleitni inn í nýtt ár frá Alþingi til þessa fólks varðandi það að það sé ekki fullkomlega afskipt.

Það er heldur engar breytingar að sjá í vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi þrátt fyrir að sú staðreynd blasi við að húsnæðiskostnaður er hlutfallslega mjög hár af tekjum þeirra sem lægst hafa launin. Þeir gera í raun lítið annað en að borga húsnæði, daggjöld og öngla saman fyrir mat. Ekki geta þau brugðist með neinu móti við ef eitthvað óvænt kemur upp á, fólk veikist, eitthvað týnist. Þetta heitir fátækt á Íslandi, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki gengist við því áðan. Það er ótrúlega furðuleg hugmynd að láta sér detta í hug að skilgreina fátækt eins og á tímum Charles Dickens. Félagsleg fátækt er gríðarlegt vandamál á Íslandi. Það eru ótrúlega mörg börn sem líða mjög sárt fyrir hana.

Ég ætlaði nú að tala um meira hérna en ekki gefst tími til þess. Þetta er búið. En ég trúi ekki öðru en að fimm þingmenn styðji þessa breytingartillögu, og ég treysti helst á Vinstri græn.