148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert launungarmál að hæstv. forsætisráðherra hefur upplýst um það í viðtölum að hún hafi reynt að fá Samfylkinguna með inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Nú veit ég ekkert hvað sá ágæti flokkur hefði sagt við því. En það fór ekki svo langt því við töldum, miðað við málefnastöðuna, málflutninginn fyrir kosningar, að þetta væri pínu eins og olía og eldur. Það yrði illa samræmanlegt. Nú hef ég fullan skilning á því að menn þurfa að gera málamiðlanir. Ég ætla ekki þessu fólki að hafa kastað öllum sínum hugsjónum. En fyrr má nú vera.

Ég spyr þá á móti, hv. þingmaður, því að málflutningur þess efnis hefur nú komið einkum frá Pírötum: Þurfum við ekki að fara að velta því fyrir okkur að með töluvert löngum fyrirvara fyrir kosningar liggi það dálítið klárt fyrir hvernig menn ætli að starfa í ríkisstjórnum? Við þekkjum í nágrannalöndunum þessa rauðu blokk og bláu blokk. Menn mega nota aðra liti mín vegna. En að það sé skýrt og menn leiðist ekki inn í eitthvert ferðalag, ætli sér í skemmtilegt partí en endi í einhverjum ótrúlegum aðstæðum sem þeir hefðu kannski eftir á viljað hafa losnað við að fara í. Ég held að það væri best fyrir alla. Ég ber alveg virðingu fyrir sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins. Ég er hins vegar í grundvallaratriðum ósammála flokknum og sé í fljótu bragði ekki hvernig Samfylkingin ætti núna að starfa með honum. Fyrir því eru nokkrar ástæður aðrar en efnahagslegar reyndar.