148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Líklega höfum við ekki svarað jafn afdráttarlaust og þið. Við sögðum hins vegar að við sæjum ekki grundvöll fyrir því að þessir tveir flokkar gætu unnið saman. Annar flokkurinn vildi afla tekna upp á 30 milljarða til að standa undir þeim 30 milljörðum sem við töldum að þyrfti að spýta inn í kerfið, en hinn sagði: Við ætlum að fara í 100 milljarða kr. innviðauppbyggingu en líka gefa eftir rúmlega 30 milljarða kr. skatt. Við sáum ekki grundvöll fyrir því að það færi saman.

Hér á Íslandi þekkjum við mjög mörg dæmi þess að ríkisstjórnir eru tæpar. Það veltur á einum eða tveimur þingmönnum. Það er í rauninni ömurlegt að þessi hefð sem hefur skapast hér, allir fara bara með öllum eftir því hvernig stemningin er, leiðir til þess að setja kannski tvo, þrjá, fjóra þingmenn í ofboðslega sálarkreppu. Ég veit að það er mjög óréttlátt að standa hér og segja: Ég trúi því að fimm úr Vinstri grænum greiði atkvæði með breytingartillögunni. Ég veit að það felst í því skuldbinding að vera í ríkisstjórnarsamstarfi. Ég hef skilning á því. En ef maður fer í partí sem byrjar að leysast upp og verða leiðinlegt verður maður bara að koma sér úr því. Því hlutirnir eiga bara eftir að versna. Ég hef farið í nokkur svoleiðis partí sem ég hefði viljað óska að ég hefði drifið mig úr strax. (Gripið fram í.)