148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra umræður um pólitískan heiðarleika, bæði fyrir og eftir kosningar, og hvernig það myndgerist. En mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru. Varðandi barnabæturnar hefur m.a. komið fram í umsögn ASÍ um bandorminn og í máli hv. þingmanns o.fl. að auðvitað ætti þessi tala að vera töluvert hærri, þ.e. mörkin þar sem skerðingarnar hefjast. Það slær mig svolítið sá skrýtni raunveruleiki að annars vegar er til tala sem á að vera lægsta mögulega tala, 300 þús. kr. sem eru lágmarkslaun. Vissulega eru einhverjir sem eru í hlutastarfi og þess háttar en ef 300 þús. kr. eiga að vera lægsta mögulega talan, að því gefnu að fólk sé í fullu starfi, hvernig virkar sú réttlæting að miða við tölur sem eru lægri en það þegar verið er að vinna að skerðingum? Ég þykist vita að hv. þingmaður sé sammála mér í þessu en það væri gaman að velta upp hvers vegna það eru víða svona gallar í kerfinu okkar, í lögum, þar sem hlutirnir samsvara sér heinlega ekki, og hvort það sé ekki tilefni til að fara í gegnum öll þau tilfelli, taka þau saman, finna út hvar þau eru, reyna að kortleggja þau og uppræta kerfisbundið, eins og um illgresi væri að ræða. Það er eiginlega vandræðalegt að setja annars vegar lágmarkstölu og hins vegar að miða við tölu sem er lægri en hún þegar kemur til útreikninga á skerðingum og þess háttar.