148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er kannski ástæða til að reyna að kortleggja nokkra grunnfasta sem eru viðmiðunargildi fyrir allt sem er gegnumgangandi, rétt eins og gert er í helstu vísindum. Segja bara: Þetta eru framfærsluviðmiðin. Það er ein af tölunum, rétt eins og önnur talan er kannski skattprósenta, þ.e. grunnskattprósentan á neðra þrepi, persónuafsláttur o.fl.

Í því samhengi þykir mér áhugavert að ríkisstjórnin leggur núna til lækkun á lægra þrepi tekjuskatts. Mér finnst það svo sérstakt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þetta verkefni, að lækka tekjuskattinn ofan frá í staðinn fyrir að hækka persónuafsláttinn? Þetta hefur mismunandi áhrif á tekjur mismunandi hópa eftir tekjuflokkum. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að hækkun á persónuafslætti skilar sér meira til lágtekjuhópa en lækkun á skattprósentu. Þetta er vel þekkt, rétt eins og það er vel þekkt sem hv. þingmaður vísaði í, að því meiri jöfnuður sem er í samfélögum, þeim mun ríkari eru allir í þeim. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á, bæði fræðilega og með þeim staðreyndum að í ríkustu samfélögunum er yfirleitt mikill jöfnuður.

Að lokum varðandi pólitískan heiðarleika, hvort við þurfum ekki þegar við nálgumst umræðu um skattlagningu og jöfnuð og þess háttar að vera almennt svolítið skýrari í því hvað það er sem við meinum, hvað felist í því að lækka skatta. Erum við að tala um að lækka (Forseti hringir.) á hæstu tekjuhópana, eins og er í þessu frumvarpi, eða viljum við frekar gera eitthvað annað?