148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef gagnrýnt að menn geri að forgangsatriði að lækka neðra þrep tekjuskattsins sem gefur mér þrisvar sinnum meira en því fólki sem ætti að vera að fá barnabætur og vaxtabætur til fulls. Fjölmargir hafa bent á að þessi kerfi vaxta- og barnabóta séu einmitt mjög skilvirk tekjujöfnunartæki. Síðan má líka útfæra þá hluti öðruvísi með hækkun á persónuafslætti.

Gefum okkur að tekjuskattsstigið verði lækkað um eitt prósentustig, þá kostar það 14 milljarða sem sannarlega hefðu gagnast inn í það öfluga jöfnunartæki sem barnabætur og vaxtabætur eru.

Hvað varðar heiðarleikann held ég því ekki fram að stjórnarmeirihluti á hverjum tíma sé samansafn óheiðarlegri einstaklinga en minni hlutans. Ég ætla ekki að gefa mér að það sé pólitískt óheiðarlegra fólk í meiri hlutanum. Ég er aðeins að tala um að þetta kerfi okkar er vont, sem leiðir fólk inn í samstarf sem það í grundvallaratriðum getur ekki náð sátt í. Lítum á skattkerfið. Það er grundvallarmunur á viðhorfum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna til skattkerfisins. Sjálfstæðismenn líta á það sem tekjuöflunarleið til að standa undir lágmarksþjónustu fimm, sex stoða í samfélaginu meðan vinstrimenn tala líka um það sem tekjujöfnunartæki. Við sjáum þess ekki stað í stjórnarsáttmálanum eða fjárlögum eða bandorminum að reynt sé að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar. Það er ekki mín greining, það er m.a. greining miðstjórnar ASÍ. Það er þetta sem ég er ósáttur við. (Forseti hringir.) Forðum fólki frá því að lenda í vondum partíum.