148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ekki er nú margt í þessu fjárlagafrumvarpi í heild sem er til bóta og síst af öllu í þeim hluta þess sem við ræðum hér. Vinnan í nefndinni hefur svo sem gengið ágætlega nema það hefur á engan hátt verið tekið tillit til breytingartillagna sem komið hafa frá stjórnarandstöðunni, hvorki í umræðu um þessa hlið fjárlagafrumvarpsins, umræðu um fjárlagafrumvarpið í heild né yfir höfuð á þinginu það sem af er.

Þetta vekur sérstaka athygli núna vegna þess að ný ríkisstjórn gerði mikið úr því þegar hún tók við að starf hennar ætti að snúast ekki hvað síst um eflingu Alþingis. Svo höfum við séð í atkvæðagreiðslum um fjárlagafrumvarpið að þar er hverri einustu breytingartillögu stjórnarandstöðunnar hafnað, sama hversu óumdeildar þær ættu að heita í eðli sínu. En vegna þess að þær komu frá þingmönnum stjórnarandstöðu var þeim í öllum tilvikum hafnað. Auðvitað óttast maður að sú verði raunin áfram. En við verðum að vona að ríkisstjórnin vilji nýta tækifærið sem gefst til að sýna fyrir áramót að henni sé alvara með breytt vinnubrögð og eflingu Alþingis. Ef hún heldur sínu striki hvað varðar það að fella allar tillögur stjórnarandstöðu hljótum við að telja það fullreynt að stjórnin hafi verið að meina eitthvað með þessum yfirlýsingum.

Það er þegar búið að fara ágætlega yfir tillögur stjórnarandstöðu, þ.e. minnihlutaálit stjórnarandstöðuflokkanna eða fulltrúa þeirra úr efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ætla því ekki að verja miklum tíma í að fara yfir þau, en hvet einfaldlega þingmenn til að kynna sér það sem þar liggur fyrir, meira að segja með skýringarmyndum, fínum súluritum í lit, a.m.k. ef þetta er skoðað á internetinu. Þetta er allt saman mjög aðgengilegt, skýrt, skilmerkilegt og sanngjarnt. Þetta eru breytingar sem eru til þess fallnar að auka sanngirnina í skattkerfinu og furðulegt ef stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki einu sinni að skoða það að nota þetta tækifæri til að sýna að honum sé alvara með að efla Alþingi.

Ég ætla hins vegar að fara aðeins yfir viðbótarbreytingartillögur sem voru að detta inn. Þær snúast um atriði sem eru einmitt til þess gerð að gefa ríkisstjórninni kost á því að sýna að hún sé tilbúin til samstarfs við stjórnarandstöðu. Þetta eru atriði sem umfram önnur á að vera hægt að ná samstöðu um. Þetta segi ég, frú forseti, vegna þess að stjórnarliðar hafa þegar tjáð sig um þessi mál á nákvæmlega þeim nótum sem lagt er upp með í breytingartillögunum. Það virðist hins vegar einhverra hluta vegna ekki hafa tekist hjá stjórnarmeirihlutanum að setja þetta inn á þeim tiltölulega skamma tíma sem gafst til vinnu við fjárlagafrumvarpið og þennan svokallaða bandorm sem við ræðum nú. En það er enn hægt að bæta úr því með því að setja þetta inn núna, samþykkja þessar breytingartillögur sem snúast um breytingar sem eins og ég nefndi allir eiga að geta verið sammála um en líka brýnar breytingar. Auðvitað er margt sem hægt væri að ná saman um. Vonandi gerum við það í framhaldinu. En þetta eru atriði sem er brýnt að breyta og varða íslenskt mál sem mér skildist að ætti að vera eitt af áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar, varðar menningu landsins og miðlun upplýsinga, stöðu fjölmiðla.

Við sjáum umræðu um það nú við áramót að hjá fjölmiðlum er staðan mjög erfið víða og ekki á þá leggjandi að búa við algera óvissu í heilt ár í viðbót í ljósi þess að það virðist vera meiri hluti fyrir því að gera eitthvað í málinu. Því er lagt til að farin verði sú leið sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur sjálfur lagt til, til að bregðast við vanda fjölmiðla. Mér finnst tillaga hans prýðisgóð. Hún snýst um það, m.a. og ekki hvað síst, að fjölmiðlar greiði ekki virðisaukaskatt af afnotagjöldum, áskriftum og afnotagjöldum á öðru formi. Með þessu er verið að styrkja rekstrarstöðu þeirra en líka verið að ná meira jafnvægi, meiri sanngirni á þessum markaði. Eins og sakir standa er Ríkisútvarpið, stofnun sem ríkið rekur, auðvitað með algera sérstöðu. Það fær til sín skatt. Afnotagjöldin til Ríkisútvarpsins, útvarpsgjaldið, er skattur sem rennur til stofnunarinnar, á meðan aðrir fjölmiðlar greiða skatt, greiða skatt til ríkisins.

Til þess að jafna þessa stöðu leggjum við til að farin verði sú leið sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur viðrað. Við tökum þannig undir með formanninum og hvetjum til þess að þetta sé gert strax því það má í raun engan tíma missa að bregðast við.

Sama á við um tillögu um að virðisaukaskattur falli niður á bókum. Það gladdi mig mjög að sjá að ríkisstjórnin virðist vera komin inn á að rétt sé að gera þetta. Þetta var, skal ég alveg viðurkenna, umdeilt atriði í tíð ríkisstjórnarinnar 2013–2016 en varð ofan á sem málamiðlun í breytingum á skattkerfinu sem áttu að skila sér í lækkun, heildarlækkun, þ.e. lækkun að jafnaði, að virðisaukaskattur var hækkaður á bækur. Þáverandi menntamálaráðherra var auðvitað ekki hrifinn af þessari breytingu. Ég var það svo sem ekki heldur. Menntamálaráðherrann þáverandi hefur tjáð sig um þetta áður. Það er því mikið gleðiefni ef ríkisstjórnin sem nú situr og núverandi hæstv. fjármálaráðherra sem var einnig fjármálaráðherra á árunum 2013–2016 hafa komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að afnema virðisaukaskatt af bókum. Þá er mikilvægt að drífa í því að framkvæma það. Því þar, rétt eins og í íslenskum fjölmiðlum, eru menn í mikilli vörn þessa dagana og mikilvægt þar af leiðandi að bregðast við og gera þeim sem standa undir þessum stóra þætti íslenskrar menningar kleift að starfa áfram að því góða verki. Auðvitað er allur gangur á því hversu góðar afurðirnar eru en það er ekki stjórnvalda að segja til um það heldur að búa til þær aðstæður sem gera mönnum kleift að halda áfram að bæta við íslenskan menningararf og halda áfram virkri umræðu og upplýsingamiðlun á íslensku.

Ég þarf svo aðeins, frú forseti, að nefna það sem við ræddum töluvert hér í 2. umr. sem eru þessar stóru skattbreytingar á borð við hækkun fjármagnstekjuskatts. Mér virðist sem stjórnarmeirihlutinn, a.m.k. hluti hans, hafi ekki áttað sig á því sem fram kom í þeirri umræðu. Til dæmis, sé mið tekið af yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, fyrr í dag þar sem hann ítrekaði að hækkun fjármagnstekjuskattsins væri til þess að ná auknum jöfnuði í því hvernig menn væru skattlagðir óháð uppruna tekna. Það virðist sem sagt ekki hafa skilað sér, þrátt fyrir talsverða umræðu þar um, bæði í nefnd og í þingsal, að þeir sem hafa tekjur á því formi að þeir greiða af þeim fjármagnstekjuskatt en ekki hefðbundinn tekjuskatt greiða í engum tilvikum 20% skatt. Í öllum tilvikum er skattprósentan töluvert hærri og í mörgum tilvikum, jafnvel flestum, alla vega ef þessar breytingar ganga í gegn, hærra hlutfall en þeir sem greiða hefðbundinn tekjuskatt.

Tökum sem dæmi iðnaðarmann sem er með fyrirtæki utan um vinnuna hjá sér. Ef viðkomandi greiðir sér arð út úr fyrirtækinu, tekur laun eða tekjur á því formi, þá greiðir viðkomandi fyrst 20% tekjuskatt fyrirtækisins og svo leggst fjármagnstekjuskatturinn ofan á það. Heildarskattprósentan 36%. Og eftir þessa hækkun sem hér er boðuð: 37,6%. Það er eins og a.m.k. hluti þingmanna meiri hlutans hafi ekki áttað sig á þessu og telji að þarna sé annars vegar um að ræða 20% skatt og svo hinn hefðbundna tekjuskatt. Slíkur samanburður er alrangur eins og komið hefur fram í umræðum um frumvarpið en ekki skilað sér í neinum breytingum eða lagfæringum af hálfu meiri hlutans.

Það sama á við, svo ég taki dæmi, eldri hjón sem hafa eignast einbýlishús, selja það svo og ætla að hafa tekjur af vöxtunum af því, eða sleppa því að selja húsið og leigja það og hafa þannig tekjur á efri árum. Þau greiða ekki bara 20% skatt af þeim tekjum því að þau greiða ekki aðeins skatt af eiginlegum vöxtum heldur verðbótunum líka. Svoleiðis að í báðum tilvikum, hvort sem um er að ræða einhvern sem leigir út hús eða selur húsið og á sjóð til að lifa af, fer raunskattlagningin mjög hratt yfir 50%. Það veltur auðvitað á aðstæðum hverju sinni, á vöxtum og verðbólgu, en í flestum tilvikum er hin endanlega skattlagning ekki bara hærri en 20% heldur miklu hærri en annar tekjuskattur.

Ef viljinn stóð raunverulega til þess að jafna skattlagningu tekna óháð uppruna þeirra eins og það var orðað þá þarf stjórnarmeirihlutinn að endurskoða hvernig að því er staðið. Og þessi tillaga er augljóslega ekki til þess fallin.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég nefndi í upphafi um mikilvægi þess að menn sýni það núna ef þeim er alvara með að breyta vinnubrögðum á Alþingi og efla stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ef menn geta ekki einu sinni tekið góðum ábendingum, vel rökstuddum ábendingum stjórnarandstöðu, og ef menn hafna sjálfkrafa hverri einustu breytingartillögu ef hún kemur frá fulltrúa stjórnarandstöðunnar þá getur það ekki verið skýrara að stjórninni var ekki alvara með að efla þingið heldur er hún þvert á móti að herða tökin. Þá mun 50% aukning framlaga til forsætisráðuneytisins milli ára nýtast vel því að stór hluti þeirrar aukningar er einmitt til þess ætlaður að halda utan um það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fylgi eftir stjórnarsáttmálanum og stefnu ríkisstjórnarinnar og þar með efla tök framkvæmdarvaldsins á því að innleiða mál og keyra þau áfram og keyra þá um leið yfir stjórnarandstöðuna.

Nú bíðum við þingmenn stjórnarandstöðu spenntir eftir því að sjá hvað gerist. Ég hef ákveðna kenningu um hver niðurstaðan verður. Ég ætla ekki að upplýsa um hana strax. En við bíðum spennt eftir að sjá hver niðurstaðan verður. Mun stjórnarmeirihlutinn taka við ábendingum og stöku breytingartillögu stjórnarandstöðunnar eða verður valtað yfir stjórnarandstöðuna og allt saman fellt? Sama hversu góð tillagan er, sama hversu þörf og sanngjörn ábendingin er, verður allt fellt ef það kemur frá stjórnarandstöðu? Það kemur í ljós, frú forseti, á morgun.