148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Búið er að reifa þetta mál ansi vel á þessum tímapunkti. Ég ætla ekki að reyna að lengja þá umræðu neitt. En það eru samt nokkrir punktar sem mig langar að koma inn á. Fyrsti punkturinn varðar hagspárgerð og líkönin sem við notum þar. Það er nefnilega þannig að það er eingöngu eitt efnahagslíkan sem er til staðar á landinu sem telst nothæft með einhverju móti, en það líkan hefur bara ekki sýnt sig að vera neitt sérstaklega nákvæmt. Ég hef oft talað fyrir því hér, og reyndar einnig hv. þm. Björn Leví Gunnarsson áðan, að það þyrfti að vera nákvæmari hagskýrslugerð til þess að yfir höfuð sé hægt að treysta forsendum þegar þær koma fram í efnahagsspá við gerð bandormsins eða fjárlagafrumvarps. Það mætti í raun segja um þetta efnahagslíkan eða haglíkan að við þurfum líkan sem er gagnsærra í forsendum og raunsærra í niðurstöðum.

Ákveðinn heiðarleikabrestur verður þegar við getum ekki horft raunsætt á stöðuna. Auðvitað er hægt að horfa óraunsætt á stöðuna ef það kemur upp að maður hefur fengið lélegar upplýsingar, vond gögn eða annað sem veldur því að maður hefur ekki forsendur til að meta stöðuna rétt.

Fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag að hann sagðist ekki sjá sömu fátækt barna og hv. þm. Inga Sæland lýsti í ræðu sinni. Ég þekki til slíkra dæma sjálfur, þ.e. um mikla fátækt hjá börnum. Ég hugsa að margir aðrir hv. þingmenn þekki til svipaðra dæma. Það veldur mér ákveðnum áhyggjum að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki þekkja til svona dæma. Það gæti verið til marks um að það þurfi aðeins að skoða aðrar hliðar samfélagsins eða víkka sjóndeildarhringinn því að fátækt hjá börnum er vissulega til staðar og það er mikilvægt að breyta þessu, laga það.

En frekar en að kvarta bara yfir því væri augljóslega hægt að skoða hvernig við lögum þetta. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen hefur margsinnis bent á er fátækt fyrst og fremst einkenni þess þegar fólk hefur ekki nógu mikið af peningum. Það að hækka tekjur hinna tekjulægstu myndi hjálpa mikið til við að laga þá stöðu. Auðvitað felst fátækt í ýmsu öðru og það eru ýmsar félagslegar forsendur til staðar og hvaðeina. En ef við getum alla vega reynt að laga tekjustöðu fátækustu heimilanna komumst við langt í því að uppræta líka félagslegu vandamálin í leiðinni.

Þar eru nokkrar leiðir. Það eru þessar tekjujöfnunarleiðir sem oft hefur verið rætt um og kom fram m.a. í máli hv. þm. Loga Einarssonar fyrr í kvöld að persónuafsláttur sé eitt besta jöfnunartækið. Það færir hreinlega til byrjunarstöðuna alveg ótrúlega mikið hjá öllum. Og hver króna sem hækkar í persónuafslætti skilar sér að fullu til allra, þar með til fátækasta fólksins. En að lækka hreinlega skatthlutfallið um sem nemur 1 krónu hjá hinum tekjulægsta skilar sér í 3 eða 4 krónum í tekjulækkun hjá hinum tekjuhæstu, eða jafnvel meira. Því að oft er hátt í áttfaldur eða tífaldur munur á launum þessara hópa.

Það gefur augaleið að mínu mati að persónuafslátturinn skili sér þá betur til fólks. Því vekur það furðu mína að ríkisstjórnin skuli ákveða að lækka skatthlutfallið frekar en að hækka persónuafsláttinn, eins og Píratar lögðu til í kosningabaráttunni og hafa oft talað fyrir, sem og aðrir flokkar. Þetta er hreinlega skynsamlegasta leiðin til að bæta stöðuna.

Hin leiðin sem reifuð hefur verið hér töluvert mikið í dag eru barnabætur. Þar hefur komið fram sú hugmynd ríkisstjórnarinnar að skerðing hefjist við 242.000 kr. frekar en 225.000 kr. eins og í dag. Það væri eðlilegra að vera í samhengi við lágmarkslaun. Ef allt væri með réttu ætti ekki nokkurn tíma að miða upphafsskerðingar við tölu sem er lægri en lægsta talan sem er í boði, sem eru þessar 300.000 kr. Það er eiginlega bara fráleitt að vinna út frá annarri tölu en lágmarkslaunum í þessu samhengi. Fyrir vikið vona ég innilega að ríkisstjórnarflokkarnir og hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar, meiri hlutans, styðji tillögu minni hlutans um að gera þessar minni háttar breytingu á barnabótum sem mun hafa umtalsverð áhrif fyrir tekjulægsta fólkið. Það kemur m.a. fram í umsögn ASÍ um þetta mál að barnabætur hafi dregist saman um 23% að raunvirði frá 2008. Það er mikill munur og hefur haft mikil áhrif á fólk sem munar um minna. Þegar um er að ræða 1.500 kr. breytingu fyrir tekjulægstu hópana í tillögum ríkisstjórnarinnar í útgreiddum barnabótum fyrir fyrsta barn á ári, og nú rúnna ég þá tölu lítillega, dugar það varla fyrir einum hamborgara. Við getum gert töluvert betur þar.

Loks langar mig að koma aðeins inn á spurningar um skattsvik. Fram kom áætlun frá ríkisskattstjóra um að 80 milljarðar kr. hyrfu úr mögulegum skatttekjum ríkisins á hverju ári vegna skattsvika og undanskota. Komið hefur fram breytingartillaga um að fresta brottfellingu á 3. mgr. 57. gr. b, laga um tekjuskatt, sem m.a. var rædd af hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni hér áðan, og fjallar um nokkurs konar bann við að fyrirtæki sem eru samsköttuð á Íslandi og eru hluti af sömu samstæðu geti fjármagnað lán sameiginlega. Ég get ekki sett neitt út á breytingartillögur meiri hlutans í þessu tiltekna atriði en mér finnst bara merkilegt að það skuli vera yfir höfuð eitthvað sem við þurfum að ræða.

Ef maður skoðar hvernig lokað er fyrir ýmsar tegundir skattsvika hér og þar í lagabálkinum er það svolítið til marks um að það er engin heildstæð nálgun til að reyna að stoppa upp í öll götin. Það er vissulega mjög erfitt og flókið að eltast við ýmiss konar skattsvik. Þau eru mjög fjölbreytt. Úti um allan heim vinna lögfræðingar beinlínis við að hjálpa fólki við að svíkja undan skatti, en það ætti að vera einhver leið til að reyna að búa til heildstæðan pakka sem er ekki alltaf í bútasaumsreddingum á skattsvikum á afskekktum stöðum. Mér þætti það vera jákvæð breyting í samhengi við væntanlega upptöku á Evrópusambandstilskipuninni BRRD að reyna að fara heildstætt ofan í spurningar um skattsvik og skattundanskot og finna leiðir til að uppræta alla vega meginþorrann. Það verður kannski aldrei hægt að loka fyrir allar mögulegar undanskotsleiðir en ef við getum kannski náð helmingnum af þeim fjárhæðum sem hverfa. Samkvæmt mati ríkisskattstjóra í dag eru það 40 milljarðar sem gætu farið ansi langt upp í til að mynda að hækka barnabætur og persónuafslátt og almennt uppræta fátækt sem er svolítið þema dagsins hér á Alþingi.

Ég hef engu við það að bæta.