148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breytingartillaga um hækkun barnabóta.

[10:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að það eru ekki mikil tíðindi í þessu svari. Það er hins vegar talað um ný vinnubrögð og hæstv. forsætisráðherra nefnir 2016. Ég hef sjálfur sem þingmaður minni hluta af og til komið inn einhverjum hugmyndum hér og þar í þingstörfum mínum, en það var líka í því umhverfi sem var 2013–2016. Ef við viljum sjá ný vinnubrögð þá er það væntanlega eitthvað sem við viljum sjá gert öðruvísi en sem gert hefur verið áður, það hlýtur að felast í merkingu orðanna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í hverju nýju vinnubrögðin felist. Auðvitað tekst minnihlutaþingmönnum af og til að koma einhverju að til meiri hlutans en það er alltaf háð því einhvern veginn að meiri hlutinn geti líka tekið ábyrgð, sett nafn sitt við það, lagt fram sínar eigin tillögur. Og ef það er hluti af tillögum meiri hlutans þá vita það allir þegar þeir greiða atkvæði, ýta á græna takkann og annars á rauða takkann. Það er mynstrið sem ég hef alltaf séð hingað til í fjárlögum, undantekningarlaust, ég hef aldrei séð það gerast öðruvísi, hvorki á þessu kjörtímabili né öðru. (Forseti hringir.)

Hvað varðar tillögur um barnabætur — þær eru kostnaðargreindar. Hæstv. ráðherra nefnir (Forseti hringir.) að við þurfum að horfa til þess hvernig við getum styrkt það kerfi. Það liggur fyrir, við vitum það, það er ekki einu sinni flókið. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra ætti styðja þetta mál (Forseti hringir.) og ætti ekki að eiga í neinum vandræðum með að gera það.