148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að segja að við getum stutt málið í lokaatkvæðagreiðslu en við munum auðvitað greiða atkvæði um þessar breytingartillögur. Mig langar bara að vekja athygli á því enn og aftur að það má búast við því að við greiðum atkvæði samkvæmt okkar bestu sannfæringu, eins og endranær, sannfæringu sem, meðan ég man, getur að vísu verið byggð á fleiri atriðum en efnisatriðum. Í vísindum á maður að leggja fram ákveðna spádóma og sjá hvort þeir standast. Þannig spáði t.d. Einstein fyrir um svarthol, mjög merkilegt allt saman. Maður þarf að prófa kenningarnar, prófa tilgátur sínar og athuga hvort þær standast prófin.

Ég spái því að stjórnarflokkarnir muni greiða atkvæði gegn öllum tillögum minni hlutans og greiða atkvæði með öllum sínum eigin tillögum. Minni hlutinn mun hins vegar greiða atkvæði ýmist með tillögum meiri hlutans eða ekki eftir atvikum.

Og megi þessi tilgáta falla. [Hlátur í þingsal.]