148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Minni hlutinn leggur fram sameinaðar tillögur sem ætlaðar eru til þess að styðja við bakið á m.a. ungum barnafjölskyldum, ungu fólki hér í landinu. Það á ekki að vera fjárhagsleg byrði fyrir fólk að eignast börn, sérstaklega ekki þegar við horfum fram á við og sjáum að þjóðin eldist ört, að fleiri og fleiri verða eldri og færri og færri verða til staðar til að vinna og hugsa um þá sem eldri eru.

Við leggjum hér til að fólki verði auðveldað að eignast börn, því gert auðveldara að eiga þau og hugsa vel um þau sem og ríkisstjórninni að vinna að einu helsta markmiði hæstv. velferðarráðherra sem snýr að því að útrýma fátækt, sérstaklega barna.