148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um annað öflugt og árangursríkt tæki sem stjórnvöld búa yfir til að vinna gegn ójöfnuði, sem eru vaxtabætur. Húsnæðisverð og fasteignamat hefur hækkað mjög mikið. Öllum er það ljóst hér inni. En viðmiðin til þess að reikna út vaxtabæturnar hafa ekki fylgt eftir. Hér er aðeins verið að leggja til að eignamörkin hækki um 5,2 millj. kr. Heildarkostnaður við þá breytingu er bara 1,3 milljarðar. Sú breyting mun helst nýtast þeim sem eru í þremur neðstu tekjutíundunum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir sýnist mér og heyrist ætla að segja nei við því að beita því jöfnunartæki á árinu 2018. Það er hjóm þegar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn talar um að hér eigi að auka (Forseti hringir.) jöfnuð og vinna gegn ójöfnuði þegar atkvæði falla eins og hér blasir við.