148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við greiðum atkvæði um þessi stóru bótakerfi okkar finnst mér mikilvægt að við horfum aðeins á stóru myndina. Sköpun atvinnutækifæra og hækkun launa eru grundvallaratriði. Barnabætur skipta líka máli, sem við vorum að greiða atkvæði um áðan. Við greiðum út 700–800 þús. í barnabætur á ári til einstæðs foreldris með tvö börn ef annað er undir sjö ára aldri og við erum að hækka það á næsta ári. Hérna er komið að vaxtabótunum. Vandinn á húsnæðismarkaðnum í dag er fyrst og fremst framboðsvandi. Þess vegna er það rétt sem hv. þingmaður kom inn á áðan að þetta getur leitt til þess að hækka einfaldlega verðið á markaðnum, ef við erum að bæta við eftirspurnaráhrifin. Þegar við ræðum um húsnæðismarkaðinn er eitt sem skiptir alltaf langmestu máli, það er að taka vextina niður. Við ættum að eyða meiri tíma í að ræða aðgerðir til þess að lækka vexti í landinu og minni tíma í umræðu um það hvað við getum gert til að hjálpa fólki til þess að borga vexti.