148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir atkvæði mínu, hvers vegna ég kýs að greiða ekki atkvæði með þessari tillögu. Fjölmiðlar á Íslandi eiga verulega undir högg að sækja og þurfa víðtækari stuðning en bara þann að virðisaukaskattur af áskrift verði felldur niður. Við þurfum að skoða það mál allt saman.

Ástæða þess að ég greiði ekki atkvæði gegn þessari tillögu er sú að þetta mál er mjög brýnt. Þetta er jú fjórða valdið og við þurfum að koma fjölmiðlum til aðstoðar. Þeir þurfa að sæta lögbanni á þessum tímapunkti vegna óþægilegrar umfjöllunar um hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra. Þeir þurfa að sæta ýmiss konar ofsóknum frá þeim sem hér ráða. En hins vegar getur vel verið að við þurfum að skoða málið (Forseti hringir.) heildrænt, m.a. með lækkun tryggingagjalds. Þess vegna segi ég bara ekki neitt og sit hjá.