148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:21]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að glíma við ný lög um opinber fjármál hérna í fjáraukanum, af því að þetta er í fyrsta skipti sem þau eiga í rauninni við fjárauka eftir því sem ég best skil þetta. Í þessu tilviki erum við að gera nýja hluti. Það fyrsta sem við gerum er að fara ekki eftir lögunum, bara einfalt, það er ekki einu sinni verið að reyna það. Ég verð að gera athugasemd við það.

Ég skil að það eru skrýtnar aðstæður og tvær ríkisstjórnir o.s.frv., en framsögumaður var náttúrlega formaður fjárlaganefndar á síðastliðnu kjörtímabili og formaður fjárlaganefndar þegar hér var starfsstjórn þegar fjárlög fyrir árið 2017 voru sett. Ég sé ekki í meðhöndlun fjárlagafrumvarpsins sem starfsstjórnin lagði fram og í meðhöndlun nefndarinnar undir starfsstjórninni hvað var t.d. aukið í til heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála, að það sé þetta mikil ástæða fyrir fjárauka einmitt án þess að varasjóðir hafi verið nýttir. Það er klárlega vandamálið eins og bent var á áðan.

Ég tel að við séum dálítið að ganga hérna á þá ábyrgð sem Alþingi á að hafa á þessu máli með því einfaldlega að láta valta yfir sig, stilla sér upp við vegg og valta yfir sig með lögum um opinber fjármál. Ríkisstjórnin leggur fram fjáraukalagafrumvarp sem fer beinlínis gegn lögum. Alþingi, eða meiri hluti þingmanna, virðist ætla að kvitta upp á það. Það finnst mér ekki vera boðleg vinnubrögð.

Ég velti fyrir mér sem spurningu hvernig við ætlum að fara með eftirlit með framkvæmd fjárlaga á næsta ári því að að mínu mati var það klárlega ekki vel gert á síðasta kjörtímabili miðað við (Forseti hringir.) hvað við erum að fá í fjárauka í lok ársins.