148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að segja að ég er að sjálfsögðu ekki sammála hv. þingmanni um að ekki sé verið að fara hér að lögum. Fjárlaganefnd fór yfir frumvarpið og greindi ástæður fjáraukalagabeiðna og þess vegna leggur hún frumvarpið fram til 2. umr. með þeim breytingum sem þar hafa verið gerðar og verið lýst. Hún myndi ekki gera það ef hún teldi að verið væri að brjóta lög að því leyti.

Um eftirlitið við framkvæmd fjárlaga á síðasta kjörtímabili telur þingmaður að það hafi farið úrskeiðis. Já, við getum örugglega verið sammála um það að mörgu leyti, en við erum enn að feta okkur þennan nýja stíg í eftirlitshlutverki fjárlaganefndar. Ég vil meina að hv. þingmaður mótmæli af því að við uppgjör fyrstu þrjá mánuði fyrri ríkisstjórnar sáum við ákveðin hættumerki þar sem hv. fjárlaganefnd öll brást við, t.d. með því bréfi sem ég lýsti áðan og sent var hæstv. dómsmálaráðherra um framkvæmd málaflokks á málefnasviði hennar. Við sex mánaða uppgjörið vorum við ekki farin að sjá í þau miklu útgjöld sem urðu síðan veruleikinn varðandi lyfja- og hjálpartækjamál.

Ég hef farið yfir yfirlitin sem bárust hv. fjárlaganefnd á þeim tíma. Það er hins vegar alveg ljóst að eitthvað hefur farið úrskeiðis í sumar og í eðlilegu árferði hefði fjárlaganefnd átt að koma auga á það við yfirferð sína í september við níu mánaða uppgjörið sem ekki varð af ákveðnum ástæðum sem við þurfum ekki að lýsa nánar. En það sem hv. þingmaður spyr um, hvað ég sjái fyrir mér í eftirliti fjárlaganefndar, þá veit ég að hann og aðrir í fjárlaganefnd og við öll erum (Forseti hringir.) sammála um að við þurfum að stíga fast í ístaðið í þeim efnum.