148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:49]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu mikla efnislega umræðu þetta frumvarp kemur til með að fá eftir þetta. Ég vona mikla, en það fer eftir því hvernig fólk tekur þátt. Það þarfnast sannarlega efnislegrar umræðu, sérstaklega í stól þingsins því að við fengum ekki mikla efnislega umræðu í nefndinni. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi ekkert fjáraukalagafrumvarp, það geti dottið inn sem halli á málaflokkaliði næsta árs. Það væri hægt að setja eitthvað af þessu sem fjáraukabeiðnir en við höfum einfaldlega ekki farið nógu vel yfir hvern efnislið fyrir sig til að geta gert grein fyrir því hverjir geta verið þar og hverjir ekki. Það sem mér finnst rosalega undarlegt er að ef fólk er sammála, eins og í framsögunni áðan, af hverju það setur þá ekki niður fótinn og segir bara: Nei, þetta er ekki að fara í gegnum Alþingi, þetta er ekki eftir lögunum eins og við höfum sett þau, það er ferli fyrir þetta þó að við séum ekki með fjáraukalög. Við þurfum ekki að gera þetta eins og við gerðum í gamla daga, að loka árinu og eitthvað svoleiðis, þetta dettur bara inn sem halli, varasjóðirnir flytjast með og við höldum áfram. Þetta á ekki að vera flókið.

Ég held að þetta sé vaninn. Svona hefur það verið gert áður, það er svo auðvelt að detta í sömu hjólförin aftur og gera eins og hefur verið gert áður. En við getum hins vegar sagt: Nei, við þurfum ekki að gera þetta svona, sleppum því og höldum áfram eins og lögin kveða á um. Ég sé ekki að það skaði neitt, alls ekki. Lögin gera einfaldlega ráð fyrir því að það komi ekki fjáraukalagafrumvarp og það séu varasjóðir og halli eða plús á málaflokknum sem detta þá inn í varasjóðina eins og við á.