148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að minnast hér á innleiðingarferlið sem á að taka ákveðinn tíma. Það er vissulega rétt. En við erum stödd í fjáraukahluta þess ferlis og það þarf ekkert að taka langan tíma. Það er ekkert rosalega flókið að fara eftir þeim reglum sem varða fjárauka í lögum um opinber fjármál. Ég skil að öllu leyti hinn hlutann sem tekur langan tíma að byggja upp; stefnumótunina, hvernig hún kemur fram í fjármálaáætlun, svo í fjárlögum o.s.frv. Það tekur rosalega langan tíma að byggja það upp. Það tekur rosalega stuttan tíma að fara eftir því hvernig á að nota fjáraukalög.

Eftir þá ábendingu langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort einhverjar heimildir, sem sóst var eftir í fjáraukalögunum, eru augljóslega ekki samkvæmt skilyrðum fjárauka og þá hvaða heimildir það eru. Þá tek ég dæmi um samgöngumál. Gert er ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi aukalega vegna samgöngumála, að hluta til, 200 millj. kr. vegna slipptöku Herjólfs, og næstum því 200 millj. kr. til að mæta kostnaði við vísitölubindingu samninga Vegagerðarinnar vegna styrkja til ferjureksturs. Þetta er áhugavert því þjónustusamningar þar eru um 4,6 milljarðar samkvæmt fjárlögum 2017 sem mundi þýða um 4,2% af þeirri upphæð. Það er augljóslega miklu meira en vísitölubindingin. Okkur var sagt að þetta væri uppsafnað, þannig að ég skil ekki hvernig það er eitthvað ófyrirsjáanlegt þar.

Það sem var nefnt varðandi sauðfjárbúin og styrkina, þar kemur áhugavert samhengi. Í samhenginu er verið að styrkja sauðfjárrækt, að því er mér skildist í nefndinni, um 5 milljarða, verið að bæta 500 milljónum við eða 10% í einni hendingu. Þá dettur mér einfaldlega í hug að spyrja: Erum við að nýta þessa 5 milljarða svona illa? Því miðað við fjölda (Forseti hringir.) sauðfjárbúa hlýtur það að vera ansi há upphæð á ári sem fer til hvers sauðfjárbús í beinum styrkjum frá ríkinu.