148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður talar um að við séum að loka þessu núna í fyrsta sinn í hreinu ferli. Ég held að það hafi verið tveir fjáraukar í fyrra. Kerfið gerði ekki ráð fyrir því til dæmis. Lögin gerðu ekki ráð fyrir því. Þannig að það er ýmislegt búið að ganga á. Þess vegna sagði ég það hér áðan að ég held að við eigum að reyna að horfa aðeins yfir lögin, gefa okkur tíma til þess og sjá hvað það er sem við þurfum og hefðum þurft að takast á við og hvort það er eitthvað sem við viljum breyta.

Lögin segja líka að hver ríkisstjórn eigi að setja sér stefnu, síðan á hún að setja sér ríkisfjármálaáætlun og svo á hún að setja sér fjárlög. Það má í raun segja að það ferli hafi aldrei verið afgreitt af einni og sömu ríkisstjórn. Þess vegna segi ég þetta. Við höfum aðra pólitík hér en t.d. víða á Norðurlöndunum sem gengur beinlínis út frá því að í gildi séu þau fjárlög sem samþykkt voru, sums staðar er ekki kosið heldur gengur þú bara inn í þau. Svo eru auðvitað sum lönd sem eru alltaf klár með fjárlög, klár í kosningar og klár með fjárlög. Við erum það ekki. Við erum allt öðruvísi hvað þetta varðar þegar kemur að kosningum og ríkisfjármálum.

En ég segi enn og aftur: Ég tek undir þá gagnrýni, sem hér hefur verið viðruð í álitum meiri hluta og minni hluta, að við þurfum að gera betur en hér er gert. Það er alveg klárt og við göngumst við því. Við áminnum okkar ríkisstjórn um það að hún þurfi að gera það, að svona lagað verði ekki liðið aftur. En við ákváðum að vinna þetta á þennan hátt núna þrátt fyrir að við hefðum jafnvel viljað gera það öðruvísi ef við hefðum haft rýmri tíma til þess.