148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki náð sérstakri efnislegri umræðu um þær heimildir sem er verið að reyna að fá inn í þessum fjárauka. Því velti ég fyrir mér afgreiðslu okkar hér í þinginu þegar allt kemur til alls. Hefðin er að stjórnarandstaðan sé á gulu að hleypa svona dóti í gegn. En það er ýmislegt í frumvarpinu sem á ekkert heima í því. Við höfum ekki náð efnislegri umræðu um þau atriði og getum þar af leiðandi illa tekið ákvörðun um hvort eitthvert ákvæði eigi við eða ekki upp á að geta sagt: Nei, við viljum þetta ekki. Við getum ekki sem þingmenn auðveldlega staðið saman varðandi ákveðnar fjárheimildir, hvort þær eigi að ná brautargengi eða hvort við eigum að geta sett niður fótinn og sagt nei. Mig langaði til að ná einhverri efnislegri umræðu í kjölfarið.

Ég spyr hv. þingmann: Hver væri afleiðingin af því að segja nei við fjáraukanum eins og hann leggur sig? Ég er aðeins búinn að hugsa það og velti því upp að þá komi bara fjárlagaliðir í halla eins og gengur og gerist, fari bara yfir á næsta ár; að það sé bara haldið áfram að glíma við það á eðlilegan hátt o.s.frv., en þannig tel ég að lög um opinber fjármál ættu að vinna eðlilega. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi svipaða afstöðu eða skilji þetta eins og ég, þ.e. að við eigum að komast út úr þessu í lok árs, redda okkur með fjárauka, til að loka árinu á núlli og alls konar svoleiðis, eða ekki.