148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þrátt fyrir, eins og hv. þingmaður segir, að ráðuneytin séu vel vakandi fyrir því að ekki sé hægt að fara í fjárauka voru þetta samt svörin sem við fengum í fjárlaganefnd strax í janúar, febrúar, þegar við gengum eftir því hvernig þau ætluðu að haga sér innan heimilda varðandi ýmis mál. Þá kom bara: Fjáraukinn. Það er greinilega stutt í þetta úrræði.

Ég veit líka að hv. þingmaður hefur áhuga á freistnivandanum. Ég skil hann en ég skil líka hvernig við ættum að ná ákveðinni togstreitu þar á milli, milli fjárlaganefndar og Alþingis og ráðuneytanna, ef freistnivandinn er þar. Freistnivandinn er líka hérna megin, á Alþingi, að henda peningum út um allt. En við erum náttúrlega með reynslu frá síðastliðnum desember þar sem ekki var farið offari, þótt sumir hefðu viljað fara lengra, aðrir styttra, í ýmsum málum. Þessi dínamík þarf að vera meiri núna í fjármálaáætluninni, að við séum (Forseti hringir.) miklu betur í stakk búin fyrir fjárlög 2019 eftir að hafa afgreitt fjármálaáætlun mjög vel og í góðri samvinnu. Ég hlakka til að sjá hvernig það verður.