148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé fullkominn einhugur innan fjárlaganefndar um að taka á þessum málum. Við höfum lært mikið í nefndinni á undanförnum dögum eða sólarhringum, þeir hv. þingmenn sem þar sitja. En mig langaði að spyrja hv. þingmann varðandi tímarammann.

Það er annað sem ég er búinn að vera að hugsa svolítið um á undanförnum sólarhringum í fjárlaganefnd, þ.e. heimildirnar og hvernig framkvæmdarvaldið hefur farið fram með þær. Nú er hv. þingmaður nýlega staðinn upp úr ráðherrastóli. Hvaða viðhorf hefur hv. þingmaður varðandi heimildir og það hvernig framkvæmdarvaldið fer með þær oft, að löggjafarvaldið muni að lokum gefa sér heimildirnar þegar málin eru frágengin? Hafa viðhorf hv. þingmanns kannski breyst eftir setu í fjárlaganefnd undanfarna daga eftir að hafa áður setið með framkvæmdarvaldinu?