148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil vekja sérstaka athygli á og þakka hv. nefndarmanni fjárlaganefndar fyrir áhuga hans á LSR-heimildarákvæðinu. Mig langar til að vekja aðeins meiri athygli á því, það hefur ekki verið gert það vel hingað til í umræðunni.

Í umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að það er í rauninni búið að afgreiða þetta. LSR er búið að greina hvort þetta eignasafn henti þeim eða ekki. Búið er að afgreiða þetta, því að ekki er gert ráð fyrir þessu heimildarákvæði í fjárlögum 2018. Í kvöld eða á morgun á að klára þetta. Búið.

En þrátt fyrir að búið sé að greina þetta, greina eignasafnið þarna á milli og gæta þess að þetta passi allt inn o.s.frv. fylgir þessu engin greining til okkar í fjárlaganefnd. Ekkert. Alþingi er einfaldlega haldið frá þessu ferli þangað til viku fyrir áramót. Við spyrjum en fáum engin svör.

Við spurðum einmitt sérstaklega hvort þetta hefði einhver áhrif á gagnsætt ferli varðandi sölu eigna í Lindarhvoli, ef við værum að spyrjast fyrir um einhvers konar skýrslu þar að lútandi, hvort það myndu koma einhvers konar öðruvísi upplýsingar frá LSR en við fengjum í gegnum Lindarhvol, því það er í framkvæmd ráðuneyta.

Mig langaði aðeins að fá frekari viðbrögð frá hv. þingmanni við því sem ég er að bæta við hérna um hversu lítið fjárlaganefnd hefur verið greint frá því hvað þessi heimild þýðir í raun, að flytja þetta yfir til LSR frá Lindarhvoli.