148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Fram kom í 1. umr. málsins þegar fjármálaráðherra fór yfir þetta með LSR að það væri sjálfsagt að fara yfir þetta í nefndinni, lista yfir það um hvaða eignir þetta snerist. En við fengum bara útskýringar á því að nei, þarna væru einstaklingar o.s.frv. Það var greinilega lokað alveg á að við gætum fengið einhverjar upplýsingar. Við fáum ekki einu sinni upplýsingar um hugsanlegt verðmætamat. Hver veit nema þetta sé bara eftir innheimtukostnað og málaferli og eitthvað svoleiðis, sem voru rosalega góðar spurningar hjá hv. þingmanni í nefndinni. Aukinn kostnaður, bara að það kosti okkur greinilega að losna við þetta. Við höfum ekki hugmynd um það.

Mér finnst þar liggja hundurinn grafinn í þessu ferli, við vitum ekki neitt. Það eru greinilega einhverjir aðrir sem vita meira og þá á ég við framkvæmdarvaldið. Það svarar ekki spurningum okkar. Þá fara allar bjöllur í gang hjá mér: En fyrirgefðu, við eigum að fylgjast með framkvæmdarvaldinu og passa að það sé ekki að ofnota vald sitt á einhvern hátt sem við ættum eðlilega að geta bremsað það í.

Ég kalla eftir meiri upplýsingum um þetta mál. Það hlýtur að vera hægt að færa þessa heimild yfir á næsta ár á einhvern hátt þannig að þetta sé ekki bara afgreitt á morgun og málið farið úr höndum okkar.