148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, jú, það er auðvitað úr karakter. Ég ætla ekki að standa hér og segja að Vinstrihreyfingin – grænt framboð átti sig ekki jafn vel á því og við að menntun er ákaflega mikilvæg og stór þáttur í því að auka jöfnuð í samfélaginu. Ég held að þetta hafi verið klúður. En þau verða bara að finna út úr því. Og þau verða að finna út úr því áður en við göngum frá fjárlögum fyrir árið 2019.

Það er þannig í norrænu ríkjunum þegar menn velta fyrir sér af hverju jöfnuður þar er svona mikill og af hverju svo margt gott er í norrænu ríkjunum sem ríki vilja líta til, þá er það út af þessum þremur sterku stoðum undir samfélögunum, þ.e. ábyrgri efnahagsstjórn, sterku velferðarkerfi með góðum skólum og öruggu skólakerfi sem veitir öllum tækifæri, og svo í þriðja lagi heilbrigðum vinnumarkaði.

Þess vegna þurfum við t.d. að gæta hér að svikum og félagslegum undirboðum sem tíðkast nú í auknum mæli á vinnumarkaði og eru því miður tengd innfluttu vinnuafli meira en Íslendingum og valda ójöfnuði í samfélaginu og reiði. Þegar ójöfnuður verður mikill og stjórnvöld beita ekki stýritækjum sínum til þess að rétta það af þá eykst líka reiðin í samfélaginu og glæpum fjölgar og við verðum verri til heilsunnar. Auðvitað eigum við að stuðla að jöfnuði. (Forseti hringir.) Öflugt menntakerfi er stór hluti af því.