148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta fjárlagafrumvarp ber þess glöggt vitni að það er borið fram af tveimur flokkum sem hafa róið hvor í sína áttina áratugum saman og þeim þriðja sem er í frígír í þessu samstarfi.

Það er engin pólitísk sýn, enda við hverju er að búast? Stærstur hluti frumvarpsins er arfleifð frá fyrrverandi ríkisstjórn og lappað upp á það af einhverjum embættismönnum. En auðvitað er ekki ágreiningur um að auknu fé sé varið til heilbrigðismála, menntamála o.s.frv.

Samgöngukaflinn er í skötulíki.

Það er ekki hægt að styðja þetta frumvarp því að, eins og ég segi, það skortir í það allan metnað, alla pólitíska sýn og pólitíska hugsun fram á veginn. Afgreiðsla þessa máls núna á hálfum mánuði einkennist akkúrat af þeim vinnubrögðum sem fólk í landinu vill ekki að þessi stofnun sýni. Þó að allir hafi staðið sig vel og gert sitt besta er afgreiðslan sem slík ekki með þeim hætti sem fólkið í landinu vill að hér sé unnið eftir. Ég vona að það horfi til bóta á næsta ári (Forseti hringir.) og hlakka til þess að eiga meiri tíma á næsta ári til að taka fyrir næsta frumvarp.