148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við greiðum nú atkvæði um ber vitni um gríðarlega sterka stöðu í efnahagslífinu. Við erum með afar sterka skattstofna um þessar mundir. Hér hefur verið mikið rætt um töluvert mikinn útgjaldavöxt í þessu frumvarpi og á undanförnum árum. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Það sem meiru skiptir er hins vegar það að heildargjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru ekki að hækka, þau hafa frekar verið að lækka.

Okkur er að takast með uppgreiðslu skulda að breyta vaxtagjöldum í samneyslu og fjárfestingar og við erum á sama tíma áfram að greiða upp skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina. Við erum að styrkja innviðina. Við erum með sterka skattstofna og erum að byggja upp samfélagið okkar.

Frá öllum hliðum séð er þetta sterkt frumvarp í sterkri stöðu. Það er ekki að furða þótt stjórnarandstaðan viti í raun og veru ekkert hvernig eigi að taka á málinu vegna þess að maður hefur sjaldan séð jafn ósamstiga stjórnarandstöðu sem ýmist segir að of miklu sé eytt eða að málið sé óábyrgt vegna þess að of litlu sé eytt, að það eigi að hækka skatta eða bara lækka þá.