148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sá starfshópur sem ég hef skipað er skipaður sérfræðingum á ólíkum sviðum, bæði þeim sem þekkja vel til stjórnsýslunnar en líka siðfræðingum og öðrum. Hópnum er ætlað að fara yfir í fyrsta lagi siðareglur framkvæmdarvaldsins, þ.e. ríkisstjórnar og stjórnsýslu, fara yfir reglur um hagsmunaskráningu, en eins og kunnugt er er það í raun og veru ekki fyrr en eftir hrun að Alþingi og ríkisstjórn fara í það verkefni að setja sér siðareglur. Það má segja að við höfum verið langt á eftir öðrum löndum þegar að því kemur.

Ég tel fulla ástæðu til að fara yfir þessar reglur, hvernig framkvæmd þeirra hefur verið og hvað við getum gert betur. Það er líka hlutverk þessa starfshóps að bera þessar reglur að því hvernig þetta hefur verið framkvæmt annars staðar, í þeim löndum sem við berum okkur saman við, til að tryggja að við séum í einhverjum takti við þær reglur sem þar tíðkast. Ég tel þetta í raun mjög tímabært.

Fyrir utan þetta hef ég óskað eftir því við þennan starfshóp að hann skoði einnig aðrar umbætur (Forseti hringir.) sem hugsanlega sé þörf á í lagaumhverfi stjórnsýslunnar.