148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú var hæstv. forsætisráðherra einn af þeim þingmönnum sem ákvað að draga fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdóm. Niðurstaðan þar varð sú að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki haldið nógu marga fundi, ef ég skil niðurstöðu landsdóms rétt. Nú spyr ég hæstv. ráðherra, sem ákvað að forveri hennar í starfi skyldi dreginn fyrir landsdóm, hvort ekki sé tilefni til þess að ráðherrar, sem eru dæmdir í Hæstarétti, horfi nú aðeins inn í sig og velti fyrir sér hvort þeim sé sætt. Eða hefur forsætisráðherrann ekki áhyggjur af því? Hefur ráðherrann enga skoðun á því hvenær ráðherrar eigi að axla ábyrgð?

Úr því að ráðherrann studdi það á sínum tíma að forveri hennar yrði dreginn fyrir landsdóm, hafði skoðun á því máli þá, spyr ég: Hefur hæstv. forsætisráðherra enga skoðun á því hvort hæstv. dómsmálaráðherra eigi að segja af sér eða sitja áfram?

Þá spyr ég: Hvenær, að mati hæstv. forsætisráðherra, eiga ráðherrar að segja af sér þegar þeir hljóta dóm?