148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar hér til niðurstöðu sem Alþingi komst að í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis, sem var unnin í samráði allra flokka og var borin undir atkvæði. Þessi ákvörðun, að leggja til að málum tiltekinna ráðherra yrði vísað til landsdóms, var tekin sökum umfangs þeirra mál. Ég hef hins vegar sagt það sjálf að mér finnist ástæða til að endurskoða lögin um ráðherraábyrgð og ákvæðin um landsdóm í kjölfar þess máls. Ég tel að þau séu að mörgu leyti barn síns tíma þó að við þurfum auðvitað að ræða það á þessum vettvangi nákvæmlega hvað ætti að koma í staðinn. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður telur þessu saman að jafna, atburðarás sem var samkvæmt tillögu meiri hluta þingmannanefndar sem vann úr niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis og þessum dómi.

Ráðherra spyr hvenær ráðherrar eigi að fara fyrir landsdóm. Ég held að full ástæða sé til að endurskoða það fyrirkomulag. En hvenær er ráðherrum sætt? Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Ég tel ekki endilega að dómur fyrir brot á lögum leiði til afsagnar ráðherra. Það sagði ég algjörlega skýrt hér áðan í mínu fyrra svari eins og hv. þingmaður heyrði.