148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir hans innlegg. Nú er það svo að núverandi ríkisstjórn hækkaði gjöld á bifreiðar aðeins um helming á við það sem græna ríkisstjórnin, sem var á undan, hugðist gera og tapaði þar með úr ríkissjóði yfir 2 milljörðum sem hefðu nýst ágætlega í þessar aðgerðir. Í staðinn standa eftir í fjárlagafrumvarpinu, minnir mig, 20 millj. kr., sem er varla mikið.

Það er góðra gjalda vert að við stuðlum að rafvæðingu bílaflotans og samgangna og það höfum við öll samþykkt. En þar með er bara einn björn unninn vegna þess að bíllinn í eðli sínu, einkabílinn, er óheillafyrirbrigði ef hann er notaður of mikið. Það er ekki bara orkugjafinn sem slíkur sem er slæmur, það er þessi eiginleiki bílsins að hafa þennan gríðarlega hreyfanleika, að maður getur búið 100 km frá vinnu, farið á fótboltaleik aðra 50 km og verslað svo 30 km þar í burtu og farið heim til sín allt á sama deginum. Það býr í sjálfu sér til innbyggða hvöt til að belgja út byggðina og vinna land sem engin þörf er á. Það er það sem þarf að taka á.

Það er nefnilega mikill misskilningur að það sé einhver smekkur hvað sé gott skipulag og hvað slæmt. Við hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson erum örugglega sammála um að þar er hægt að komast að algildri niðurstöðu sem byggist ekki bara á fegurð heldur líka skynsemi og umhverfissjónarmiðum.