148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um grunnhugmyndir Samfylkingarinnar í skattamálum. Þær eru það keimlíkar hugmyndum Vinstri grænna í skattamálum að það gæti varla vafist fyrir þingmanninum að eiga samstarf við okkur einhvern tíma. [Hlátur í þingsal.] En ég er hins vegar ekki viss um að við myndum gefa jafn mikið eftir.

Með veiðigjöldin þá viljum við fyrst og fremst að þjóðin fái hærri afgjöld af sameiginlegum auðlindum sínum, hvort sem um er að ræða sjó eða orku eða annað slíkt. Auðvitað getur slíkt leitt til mikillar samþjöppunar. En það eru líka til aðrar leiðir til að halda uppi byggðum í landinu en að þvinga menn til að standa í útgerð og atvinnuháttum sem bera sig kannski ekki lengur. Af hverju bjóðum við ekki út eitthvað af þessum kvóta? Af hverju tökum við ekki byggðakvótann og látum byggðirnar fá peningana í staðinn fyrir að vera með þetta kerfi sem við erum með í dag og gerum þeim kannski kleift að byggja upp á nýjum atvinnuvegum, ferðaþjónustu, nýsköpun og öðru slíku?

Síðan er alveg ótrúlegt að hlusta á fulltrúa frjálshyggjunnar hérna, hv. þm. Óla Björn Kárason, þegar kemur að útgerðinni. Á hún að lúta allt öðrum lögmálum en allir aðrir? Allt öðrum en verkfræðistofur eða rakarastofur eða nuddstofur? Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki. En ef hv. þingmaður getur fullvissað mig um að í núverandi kerfi hafi byggðunum ekki blætt, þá skal ég bara biðjast afsökunar.