148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að byrja á að þakka fyrir að efnt skuli til þessarar umræðu hér, sem ég tel mjög góða og tímabæra. Því þó að þessi ríkisstjórn hafi ekki starfað lengi er svo sannarlega komið tilefni, mörg tilefni, til að ræða störf hennar og ástand og horfur í stjórnmálunum fram undan.

Þessi ríkisstjórn kynnti sig þannig að hún ætlaði sérstaklega, umfram allar aðrar ríkisstjórnir, að vinna að eflingu Alþingis. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar hét ekki stjórnarsáttmáli; nei, þetta var sáttmáli um samstarf þriggja flokka og eflingu Alþingis.

En hver er svo raunin sem blasir við okkur aðeins fáeinum vikum síðar? Hver og einn ráðherra er búinn að ráða sér tvo pólitíska aðstoðarmenn. Þeir hafa aldrei verið jafn margir þegar allir ráðherrarnir hafa ráðið tvo; ég er ekki viss um að þeir hafi allir klárað það en það eru þá fáir eftir. Á sama tíma er stjórnin að auka verulega fjárveitingar til annarra pólitískra verkefna á sínum vegum. Þingflokkar stjórnarflokkanna fá að sjálfsögðu sitt fólk til starfa. Aukningin til forsætisráðuneytisins, til pólitískra verkefna, nemur hundruðum milljóna. Heildaraukningin til forsætisráðuneytisins milli ára er rúmlega 50%. Eitthvað hefði núverandi hæstv. forsætisráðherra nú sagt, og félagar hennar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, ef einhver forsætisráðherra í fyrri ríkisstjórn hefði gert annað eins. Stór hluti þessarar aukningar á að renna í að beita sér pólitískt í að ráða fólk til að vakta pólitíkina hjá ríkisstjórninni.

Svo bætist auðvitað eitt og annað við. Þessi ríkisstjórn ætlar að stofna alls konar starfshópa og nefndir, ráða þar inn fólk til að vinna að pólitískri stefnu stjórnarinnar. Svo eru upplýsingafulltrúar ráðuneyta og auðvitað allt embættismannakerfið sem er í vinnu fyrir framkvæmdarvaldið. En Alþingi á víst að fá að ráða einn nýjan starfsmann á sama tíma. Þetta er efling Alþingis, niðurstaða sáttmála um samstarf þessara þriggja flokka og eflingu Alþingis. Aldrei hefur eins miklu verið ausið eins hratt í framkvæmdarvaldið og að styrkja pólitíska stöðu flokkanna sem mynda stjórnina. Enda veitir þeim sjálfsagt ekkert af að fá aðstoð við að útskýra út á hvað þetta stjórnarsamstarf gengur eða reyna að draga upp þá mynd að það hafi einhvern tilgang. Stjórnin, eða margir sem hana mynduðu, var að vísu hreinskilin með það að þetta yrði ekki stjórn mikilla breytinga, ekki stjórn stórra lausna, þetta væri svona stjórn til að halda í horfinu og eyða peningum. Það hefur hún gert og státar sig af því eins og hæstv. forsætisráðherra gerði síðast hér í ræðu sinni í dag, hvað henni tekst að auka mikið útgjöld ríkisins. Það virðist vera sjálfstætt markmið.

Staða þingsins hefur ekki verið styrkt á nokkurn hátt. Við sáum það þegar kom að því að skipa í nefndir. Stjórnarandstaðan fékk ekkert umfram það sem hún átti beinlínis rétt á í krafti fjölda. Þegar kom að því að afgreiða fjárlög var ekki ein einasta tillaga frá stjórnarandstæðingi samþykkt, jafnvel þó að það væru tillögur sem féllu fullkomlega að því sem stjórnin hafði boðað. Af því að þær komu frá stjórnarandstæðingi á þinginu, komu frá fulltrúa minni hluta, voru þær felldar af öllum stjórnarliðum með tölu. Það er passað upp á agann í stjórnarliðinu og að menn hlaupi ekki út undan sér og fari að leyfa þinginu að ráðskast með ákvarðanir ráðherranna. Þetta er ríkisstjórnin sem kynnti sig sem stjórn um breytt vinnubrögð á Alþingi og eflingu Alþingis.

Herra forseti. Þessi stjórn virðist ætla að halda í horfinu, reyna það, eins og hún boðaði, frekar en að koma með eitthvað nýtt, ráðast í kerfisbreytingar. Hún virðist ætla að auka útgjöld til ýmissa málaflokka en ekki laga kerfið. En hver er afleiðing slíkrar stefnu? Við sjáum það nú þegar. Við sjáum það nú þegar í afturför á ýmsum sviðum. Það skortir ekki fjármagnið. Meðal annars hefur ríkisstjórnin boðað að hún muni nýta eigið fé úr bönkunum, tveimur þeirra, Landsbankanum og Íslandsbanka, í þarfari verkefni, í greiðslu skulda og innviðauppbyggingu. En hún ætlar hins vegar ekki að gera það sama með Arion banka því að þar er þetta sinnuleysi stjórnarinnar, eða stefna um að reyna bara að halda sjó, þegar að skila sér í að ríkið er að missa Arion banka úr höndunum. Það hefur orðið U-beygja á þeirri stefnu sem var boðuð og innleidd á árunum 2013–2016 og þar af leiðandi fer umfram eigið fé Arion banka ekki í uppbyggingu innviða á Íslandi, ekki í að bæta heilbrigðisþjónustuna eða menntakerfið, heldur í bónusa hjá vogunarsjóðum í New York og London. Þetta er afleiðing af nálgun þessarar ríkisstjórnar í stjórn landsins.

Sama á við um Landspítalann þar sem hæstv. forsætisráðherra heldur því nú ítrekað fram að þingið hafi sérstaklega samþykkt að nýjan Landspítala ætti að byggja við Hringbraut. Það er öðru nær, herra forseti. Hæstv. ráðherra ætti nefnilega að rifja upp hvernig það var þegar sú tillaga sem hæstv. ráðherra vísar í var samþykkt. Þá var lögð fram tillaga — og ánægjulegt er að sjá að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli hér ætla að veita andsvar, ég held að það sé gott að ná þeirri umræðu — um að nýr Landspítali skyldi byggður við Hringbraut og þingið tekið í gíslingu til að fá menn til að samþykkja þá tillögu. En hópur þingmanna gaf þetta ekki eftir, gat ekki hugsað sér að samþykkja tillögu um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Því var hún dregin til baka eða breytt þannig að menn náðu saman um að ástæða væri til að fara í viðhald og nauðsynlega uppbyggingu á gamla húsnæðinu við Hringbraut.

Þannig er þessi ríkisstjórn ýmist að ausa fjármagni í gölluð kerfi án þess að reyna að laga þau eða að festa í sessi stór mistök sem hefði verið hægt að grípa inn í á þessum tímapunkti, en ekki miklu síðar, til að laga. Nýjasta dæmið er þessi borgarlína sem er enn eitt atriðið sem er vanhugsað og til þess fallið að auka á vandann sem lausninni er ætlað að draga úr frekar en hitt. Þarna ætla stjórnarflokkarnir, að því er virðist samkvæmt stjórnarsáttmála, að bæta við fjármagni í mjög vanhugsaðar tillögur sem munu auka til mikilla muna á vandann í umferðinni og á fjárhagsvanda sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi atriði sem ég hef nefnt hérna, nálgunin á fjármálakerfið, heilbrigðismálin eða Landspítalinn og svo þessi innviðauppbygging eða þessi hluti hennar sem borgarlínan er, eru mjög lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn sem hefur ekkert fram að færa pólitískt. Hún hefur enga sýn. Hún er ekki að boða okkur einhverja pólitíska framþróun eða jákvæðar breytingar til framtíðar, hvernig megi haga hlutum betur í samfélaginu. Nei, það eina sem hún getur gert er að ausa peningum í gölluð kerfi og halda áfram að festa mistök fortíðar í sessi í stað þess að bregðast við, leita lausna, hugsa út fyrir boxið, eins og sagt er, og nýta tækifærin og kveða niður vandamálin.

Þetta er ekki ríkisstjórn sem við þurfum á að halda við þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi. Reyndar ekki ríkisstjórn sem við þyrftum á að halda við nokkrar aðstæður. Og þetta hefur komið í ljós á aðeins fáeinum vikum. Við skulum muna það. Það eru bara nokkrar vikur liðnar frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Samt hefur allt þetta komið í ljós, í hvað stefnir.

Það er verulegt áhyggjuefni ef þetta er það sem koma skal næstu árin, ef við sitjum hér uppi með ríkisstjórn sem vanvirðir Alþingi eða gerir a.m.k. ekkert til að styrkja stöðu þess, og snýst eingöngu um að halda sem fastast í ráðherrastólana, eftirláta kerfinu að stjórna landinu en halda í ráðherrastólana og útdeila fjármagni í gallað kerfi. Það er ekki vænlegt stjórnarmynstur til framtíðar, stjórnarmynstur sem byggir á því einu að skipta á milli sín ráðuneytum og útdeila gæðum.