148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef rakið áður og fleiri hafa gert eru skilyrði forkaupsréttarins svo sannarlega til staðar. Nú bætist það við, eins og ég spurði hæstv. ráðherra út í ekki alls fyrir löngu, að farið er fram á það að ríkið gefi eftir fyrirframforkaupsrétt að því sem eftir stendur vegna áhuga á því að skrá bankann á markað. Ég spurði hæstv. ráðherra að því á sínum tíma hvort hann myndi gefa þann rétt eftir. Hann sagði þá að hann myndi ekki gera það ef forkaupsrétturinn væri til staðar. Við verðum þá bara að vona að það gangi eftir, a.m.k. með þann hluta Arion banka, að hæstv. ráðherra standi við það sem hann sagði á sínum tíma í andsvari við mig, að ríkið muni nýta þann forkaupsrétt, þó að mínu mati og annarra sé ekki of seint að grípa inn í varðandi þessi fyrstu viðskipti, sem ganga gegn því sem lagt var upp með þegar þeir sem héldu á Arion banka fengu að fara aðra leið en þeir sem héldu á Íslandsbanka.