148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:27]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði hér í ræðu sinni að ríkisstjórnin hefði enga pólitíska sýn. Einhvern tímann hefði maður haldið að slíkar staðhæfingar gengju ekki lengur og menn segðu þá heldur „gagnrýnisverða pólitíska sýn“ eða eitthvað slíkt.

Í merki Miðflokksins er hestur, föngulegur og fallegur hestur. Það minnir mig á náttúru landsins og umhverfismálin svo að mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson: Er Miðflokkurinn hlynntur markmiðum um kolefnislaust Ísland árið 2040? Hvernig vill flokkurinn forgangsraða verkefnum og fjármunum? Ég gæti auðvitað haldið því fram að Miðflokkurinn hefði enga stefnu í umhverfismálum, enga stefnu í loftslagsmálum, en ég geri það ekki. Ég vil hins vegar fá svar við þessari spurningu.

Í öðru lagi: Er hægt að sinna loftslagsmálum án þess að auka framlög ríkisins og ná til þeirra fé með einhverju móti? Í raun og veru er ég að spyrja hvort þessi tiltölulega nýstofnaði stjórnmálaflokkur vilji hjálpa okkur hinum að draga hlassið.