148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu hlynntur markmiðum um kolefnislaust Ísland enda fór ég til Parísar á sínum tíma til þess að undirrita þá stefnu fyrir hönd landsins.

Hvað varðar aðferðirnar við að ná þeim árangri þá er kannski einhver áherslumunur hjá okkur. En ég held að það sé mikilvægt að ná þessu einkum með tvennum hætti, í fyrsta lagi með stóraukinni landgræðslu og í öðru lagi með nýtingu innlendra orkugjafa. Það er nefnilega svo gott við innlendu orkugjafana að þeir eru umhverfisvænir. Þeir koma úr endurnýjanlegri orku vegna þess að við höfum byggt virkjanir til þess að nýta þá orku sem býr í náttúrunni á Íslandi á umhverfisvænan hátt. Ef við framleiddum jafn mikið af orku og við gerum nú en gerðum það með því að brenna kol eins og gert er svo víða annars staðar þá þyrfti að flytja inn 26 tonn af kolum á hvern einasta Íslending til þess að geta framleitt sama magn af orku. Ef við getum nýtt þetta í auknum mæli á þeim sviðum þar sem við erum háð kolefnaeldsneyti þá mun það og líklega það eitt gera okkur kleift að ná þessu markmiði með landgræðslunni sem ég nefndi áðan.

En refsiaðgerðir gagnvart almenningi, að refsa fólki fyrir það að eiga bíl, fólki sem hefur ekki aðstöðu til annars en að fara leiðar sinnar á fjölskyldubílnum, er mjög neikvæð og röng nálgun og mun ekki skila tilætluðum árangri, rétt eins og áform um borgarlínu mun ekki skila tilætluðum árangri heldur að mínu mati öfugum áhrifum. Það sem ég á við með því er að þá er verið að þrengja þannig að umferð á höfuðborgarsvæðinu að menn munu sitja fastir um alla borg og umferðarvandinn verður miklu verri en núna. Á sama tíma verða strætisvagnarnir hringsólandi í hverfunum að sækja farþega til þess að keyra þá að borgarlínunni í stað þess eins og núna að strætisvagnarnir fara þó um alla borgina. Með hvaða hætti þessi borgarlína á að leysa eða bæta umhverfisvandann (Forseti hringir.) fæ ég ekki séð.