148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ráðherrar eiga nú sem fyrr að taka þátt í málefnalegum umræðum á þinginu. Hins vegar gegnir öðru máli þegar þingmenn sýna Alþingi þá lítilsvirðingu að vera hér í stöðugri umræðu um fundarstjórn forseta sem snýst ekki einu sinni um fundarstjórn forseta heldur eingöngu um það (Gripið fram í.) að beita valdi, taka þingið í gíslingu. Ég skal viðurkenna að ég hef tekið þátt í því sem kalla mætti málþóf á sínum tíma en eingöngu í stórum málum, hættulegum málum sem þáverandi ríkisstjórn reyndi að troða í gegn og okkur tókst sem betur fer í mörgum tilvikum að stöðva. Það þýðir ekki að vera í því hlutverki að ætla að hafa þingið í viðvarandi gíslingu, beita það í rauninni valdi með hreinum vitleysisgangi, herra forseti, og ætla á sama tíma að stilla sér upp sem einhvers konar varðmanni Alþingis.